150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kom einnig fram hjá Ríkisendurskoðun að skjót viðbrögð stjórnvalda hefði þurft til að styðja vinnuveitendur og útvíkka rétt launamanna til atvinnuleysisbóta og horfa þyrfti til hertra skilyrða sem verið er að gera í þessu nýja frumvarpi.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi, um að launamenn fengju atvinnuleysisbætur án skilyrða, og fá aðeins betri útskýringar á því. Hlutabótaleiðin hefur gengið út á það að styrkja ráðningarsamband milli launamanns og vinnuveitanda. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér útfærsluna á því að það ráðningarsamband geti haldið ef launamaður fær bara atvinnuleysisbætur án nokkurra skilyrða og fer ekki á þessar hefðbundnu atvinnuleysisbætur, eins og ég skil hv. þingmann? Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér að vinnuveitandanum beri skylda til þess að eiga í ráðningarsambandi við viðkomandi launamann og hvort þá sé ekki komið það los þar á milli að það sé ekkert sjálfgefið, þegar hagur vænkast, að viðkomandi verði ráðinn hjá því fyrirtæki? Mig langar að fá útskýringar á því hvernig hv. þingmaður sér þetta fyrir sér og hvort hv. þingmaður telji ekki að hlutabótaleiðin eða hlutastarfaleiðin hafi skilað miklum árangri. Það hefur komið fram hjá langflestum sem hafa fjallað um málið, fyrirtækjum, Ríkisendurskoðun o.fl., að menn telja að mjög hratt hafi verið brugðist við. Vissulega hafi skilyrðin ekki verið ströng vegna þess að vinna þurfti málið við þær aðstæður að bregðast þurfti hratt við. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji ekki að við höfum farið réttu leiðina og séum nú að herða skilyrðin eins og þurfti að gera í framhaldinu.