150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Varðandi mengið, hversu mörg fyrirtæki komast inn í annars vegar uppsagnaleiðina og hins vegar hlutabótaleiðina og muninn á þessu varðandi tekjufallið, þá er alveg rétt að það er munur þarna á. Við verðum samt sem áður að átta okkur á því að þau fyrirtæki sem eru að glíma núna við verulegan rekstrarvanda, þau fyrirtæki sem eru að glíma við algjört tekjufall, oft nærri 100% tekjufall — fyrirtæki í ferðaþjónustu, fjölmiðlar oft á tíðum og fjöldi alls konar þjónustuaðila, auglýsingastofur, hönnunarfyrirtæki, listamenn, stórir og smáir listamenn, leikhús kvikmyndahús, íþróttafélög sem leigja frá sér húsnæði og stóla á alla innkomu af því — við getum bara farið í listann í skýrslu Ríkisendurskoðunar og bent á þau fyrirtæki sem eru með nánast 100% tekjufall á þessu tímabili og hjá mörgum þeirra hefur það lítið breyst. Einhver geta farið að komast aftur af stað, önnur bara alls ekki. Ég heyrði listamann í morgun, magnaðan listamann, Borgar Magnússon, tala um að það væri líklega ár þangað til að listaheimurinn myndi jafna sig eða komast eitthvað áleiðis. Þar undir eru listamenn, tæknifólk, þeir sem eru að leigja sali o.s.frv. Þannig að þetta er mengið, hv. þingmaður.