150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar og ætla að byrja á spurningunni í lokin. Nú þegar hafa einhver fyrirtæki tekið ákvörðun um að greiða til baka þann stuðning sem þeirra starfsfólk hefur fengið frá Vinnumálastofnun enda held ég að allir séu sammála um að þrátt fyrir að launamaðurinn sé að fá þetta er hann miklu meira til í að vera í 100% starfi. Þrátt fyrir að látið sé líta út fyrir að þetta sé fyrir launamanninn þá er þetta fyrir fyrirtækið. Við skulum ekki gleyma því að nú í morgun tók Icelandair ákvörðun um að taka allt sitt fólk af hlutabótaleiðinni og það gerir þá kröfu um að það fari í minnkað starfshlutfall án þess að fá eitthvað á móti eða lækki laun sín. Það verður fróðlegt að sjá hvort því fólki sem segir: Nei, ég er ekki tilbúinn til þess, verður sagt upp núna fyrir mánaðamótin til þess að komast inn á uppsagnaleiðina sem verið er að bjóða upp á. Hér er um að ræða fyrirtæki sem er klárlega sniðið fyrir það úrræði.

Varðandi það hvort fyrirtæki hafi val um að nýta sér hlutabótaleiðina ef þau geta ekki borgað 50%, þá er auðvitað fullt af slíkum fyrirtækjum sem hafa ekki ráð á því. En við skulum átta okkur á því að fyrir einhver fyrirtæki kann það að vera freisting, sérstaklega núna yfir sumarmánuðina þegar mögulega er hægt að fá Íslendinga til að ferðast og við vitum ekki hvort erlendir ferðamenn munu koma, að setja fólk frekar á uppsagnaleiðina til að getað fullnýtt starfskrafta þess. Það er ekki hægt í hlutabótaleiðinni. Við höfum heyrt í forsvarsmanni Bláa lónsins t.d. sem ég veit ekki betur en að ætli að gera þetta, sagði upp 400 starfsmönnum núna (Forseti hringir.) og tók fólk af hlutabótaleiðinni og ætlar að gera þetta svona. Ég veit ekki hvort það er þannig en hann lýsti því yfir í fjölmiðlum að hann ætlaði að nýta starfskrafta síns starfsfólks.