150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:13]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fjalla um frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra um framlengingu á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Einnig er þetta framlenging á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta sem við samþykktum fyrr í vetur. Þetta kemur í kjölfarið á frumvarpi sem var samþykkt hér 20. mars og var svar stjórnvalda við miklum vanda sem skapaðist á vinnumarkaði í kjölfarið á Covid.

Við lentum í hringiðu storms og eins og stundum verður lendir maður á skeri og þá verðum við að grípa til björgunaraðgerða. Þá spyr enginn: Hvernig eigum við að fara að eða hverjum skal bjarga? Menn henda bara út þeim björgum sem til eru. Síðan þegar á að fara yfir þær björgunaraðgerðir sem farið var í er stundum betra að fara yfir hvað tókst vel og hvað mátti betur gera. Þess vegna erum við með þetta frumvarp í höndunum í dag og setjum frekari skilyrði og förum betur yfir þetta.

Frumvarpið hafði ekki legið lengi inni í ráðuneyti og var samþykkt hér á skömmum tíma fyrr í vetur en það var óumdeilanlegt og hefur staðið undir þeim væntingum sem ætlast var til. Það höfum bæði heyrt frá launþegum og þeim stéttarfélögum sem halda utan um launþega og eins frá fyrirtækjum vegna þess að óvissan var alger og mörg fyrirtæki gripu til þess ráðs að fara hlutabótaleiðina. Sum þurftu þess kannski ekki þegar betur var að gáð og gengu til baka í því, en annars var alger óvissa.

Markmið laganna var m.a. að aðstoða fyrirtæki við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt þrátt fyrir tímabundnar þrengingar á vinnumarkaði. Með lögunum var tveimur ákvæðum til bráðabirgða bætt við lög um atvinnuleysistryggingar og einu ákvæði til bráðabirgða við lög um Ábyrgðasjóð launa. Það hefur verið ótvírætt að þessi lög, sem standa til bráðabirgða til 31. maí, bara út þennan mánuð, hafa komið að verulegu gagni og dregið úr þeirri óvissu sem bæði launþegar og fyrirtæki stóðu frammi fyrir.

Með þessu frumvarpi er verið að leggja til að framlengja þá leið og bæta við hana skilyrðum og eftirliti eins og þegar hefur verið kallað eftir í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt um úttekt Ríkisendurskoðunar sem ákvað að eigin frumkvæði að hefja samtímaeftirlit með þessari leið og var skýrslan birt á heimasíðu Ríkisendurskoðunar í gær. Ríkisendurskoðandi kom einnig fyrir velferðarnefnd og fór yfir skýrsluna auk þess sem við gátum lagt fyrir hann ýmsar spurningar sem var greiðlega svarað.

Í fjölmiðlum og í þessum ræðustól hefur minni hlutinn farið mikinn og viljað holdgera þessa skýrslu sem refsivönd á stjórnvöld og áfellisdóm yfir hlutabótaleiðinni. Það er ekki rétt. Svo er ekki og getur hver sem er kynnt sér skýrsluna á heimasíðu Ríkisendurskoðunar og farið yfir hana því að hún er, eins og hér hefur fram komið, frekar heilbrigðisvottorð um þessa leið.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar frá ríkisendurskoðanda kemur fram að 15. maí höfðu 37.000 launamenn og 6.436 vinnuveitendur nýtt sér hlutastarfaleiðina. Þetta þýðir 56 milljarða aukningu á útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem ekki var gert ráð fyrir í upphafi. Tekið er fram að þessi leið kom sér vel fyrir launamenn og einnig til að létta erfitt tímabil hjá fyrirtækjum sem stóðu frammi fyrir erfiðum samdrætti með því að lækka launakostnað og komast því hjá uppsögn. Það er skýrt tekið fram í úttekt Ríkisendurskoðunar að þessi leið nýtist til að tryggja framfærslu launamanna og viðhalda ráðningarsambandi. Þar með er tekið undir markmið stjórnvalda að einu og öllu leyti.

Í skýrslunni er bent á að ef ekki hefði verið farin þessi leið hefði mögulega þurft að mæta sama kostnaði annars staðar í rekstri hins opinbera. Þar erum við kannski sérstaklega að tala um sveitarfélögin. Þau hafa kallað mikið eftir því að ríkið komi til aðstoðar. Ef þessi leið hefði ekki verið farin hefði reynt verulega á framfærsluskyldu sveitarfélaganna og þá hefði vandi þeirra vaxið enn frekar. Þau standa frammi fyrir miklu tekjutapi jafnframt því að gera áætlanir til að flýta framkvæmdum til að mæta áhrifum Covid. Þetta hefur orðið tekjufall hjá jöfnunarsjóði og því sér ekki fyrir endann á því hver vandi sveitarfélaganna verður í lok ársins. Þau munu verða fyrir miklu tekjufalli og stórfelldri útgjaldaaukningu vegna þess efnahagsáfalls sem nú ríður yfir. Þessi leið kemur því örugglega til aðstoðar sveitarfélögum í landinu. Þau hafa biðlað til ríkisins um frekari aðstoð. Þau hafa náttúrlega framfærsluskyldu gagnvart sínum þegnum og má því segja að þessi leið hafi komið þeim til aðstoðar þar.

Ábendingar ríkisendurskoðanda beinast að því að auka þurfi eftirlit og skilyrði. Það segir orðrétt í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun bendir á að fordæmalausar efnahagsaðstæður hafa kallað á skjót viðbrögð stjórnvalda til að styðja við vinnuveitendur og útvíkka rétt launamanna til atvinnuleysisbóta. Þrátt fyrir það er brýnt að haft sé eftirlit með nýtingu ríkisfjár, að staðinn sé vörður um hagsmuni ríkissjóðs og að útgreiðslur úr honum taki mið af vilja löggjafans.“

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt það sem er tekið upp í þessu frumvarpi, að efla eftirlit og setja skilyrði. Lagt er til að herða skilyrði um fjárhag og rekstur viðkomandi vinnuveitanda. Auk þess verður að sýna fram á að um tímabundinn samdrátt sé að ræða í starfsemi vinnuveitanda auk þess sem hann staðfesti að tiltekin skilyrði er varða starfsemi hans séu uppfyllt. Jafnframt er Vinnumálastofnun gefnar auknar heimildir til gagnaöflunar og mælt fyrir um viðurlög við brotum og skilyrðum hlutabótaleiðarinnar. Þetta er það sem ríkisendurskoðandi bendir á. Þetta var þegar komið inn í umræðu í velferðarnefnd og hafði skilað sér inn í meirihlutaálit frá nefndinni þannig að það var svo sem farið að bregðast við þessu enda snerist umræðan í samfélaginu um þetta og við brugðumst við.

Kerfið sem við settum upp gaf færi á misnotkun. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram auk þess sem þar er fyrirtækjum sett frekari skilyrði fyrir aðstoð stjórnvalda og þar með er kölluð fram ríkari samfélagsábyrgð fyrirtækja. Í upphafi sáum við ekki fram úr ástandinu. Núna erum við aðeins farin að sjá til lands og því vitum við hvaða mörk við getum sett okkur. Þess vegna koma þessar breytingar fram núna. Við erum að setja okkur mörk sem við gátum ekki gert í vetur því að þá sáum ekki við til lands. Nú eru mörg fyrirtæki farin að sjá hvernig landið liggur. Eins og sumir segja þá sjá sum fyrirtæki ekki til lands og þurfa kannski að fara uppsagnarleiðina en ég kalla eftir þeim fyrirtækjum sem sitja nú á rökstólum á bak við lokaðar hurðir og taka ákvörðun um hvort þau eigi að segja upp fólki og nýta þann stuðning sem þá gefst eða setja starfsfólk sitt á hlutabótaleið. Ég held að það geti varla tekið langan tíma því ef fyrirtæki eru komin á þann stað að þurfa að segja upp obbanum af starfsfólkinu þá er þeim ekki við bjargandi, myndi ég segja. Því eru þessar leiðir mjög eðlisólíkar.

Eins og kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðanda er stærsti hluti fyrirtækjanna með mjög fáa starfsmenn, jafnvel langflest með einn starfsmenn. Sum af þessum fyrirtækjum sjá ekki fram á neinar tekjur næsta árið. Hvað gera þau? Ég held að þessi hópur af fyrirtækjum sem er verið að tala um séu fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þau eru kannski farin að sjá hvert stefnir. Sum sjá fram á tekjufall næsta ár. Þá er þetta ekki erfitt val. Þá er það önnur leið sem þau velja enda er tekjufallið kannski orðið 75% eða jafnvel 100%. Þau fyrirtæki fara ekki hlutabótaleið. Þegar við erum farin að sjá til lands þurfum við að velja leið, hvort við getum stiklað á skerjum eða farið grynningar. Það er málið. Við erum að leggja fram tvær ólíkar lausnir sem hægt er að velja um

Það má kannski segja að hlutabótaleiðin hafi tekist með ágætum. Það sýna tölur. Um 37.000 launamenn nýttu sér þá leið og eru á skrá hjá Vinnumálastofnun. Það eru 20.000 störf hjá ríkinu. Við erum því að tala um gríðarlega öfluga aðgerð sem hefur komið öllum til góða, bæði launþegum, sveitarfélögum og ríkinu. Eins og ég hef oft sagt með sveitarfélögin þá er þetta eins og að reka stórt heimili. Ríkið er bara aðeins stærra heimili. Ef maður vísar einhverjum út um einar dyr þá kemur hann bara inn um aðrar. Þarna erum við að setja undir lekann.

Nú þegar kófinu léttir og farið að sjást til lands getum við með öruggum hætti framlengt þetta úrræði út sumarið. Mikilvægt er að draga lærdóm af því og setja skilyrði eins og er gert í þessu frumvarpi í framhaldi af hlutabótaleiðinni. Markmiðið er enn þá það sama og það kemur til með að gilda áfram. Það hefur komið fram hjá Vinnumálastofnun að 15.000 manns hafi sagt sig frá úrræðinu og vonandi hafa þeir skilað sér inn í sitt ráðningarsamband að fullu. Það er það besta sem gæti komið út úr þessu.

Ég held að við þurfum ekki að standa í þessu karpi, eins og virðist vera milli nefnda, um hvor leiðin sé betri, önnur gangi lengra en hin og það sé neyðarráð hjá fyrirtækjum að velja að segja upp sínu starfsfólki. Fyrirtæki sem hefur 100 starfsmenn í vinnu sem ætlar að segja upp öllum starfsmönnum sínum er þá bara farið. Það segir sig sjálft. Sjálfvirknin er ekki orðin slík að við rekum hér hótel með núll starfsmönnum. Það er ljóst.