150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:51]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum framlengingu á svokallaðri hlutabótaleið sem ég tel að hafi verið ein af betri leiðum í úrræðum sem komu strax í upphafi vegna Covid, og hefur virkað mjög vel. Kom það fram í meðförum nefndarinnar hvað úrræðið hefði heppnast vel, að mati Vinnumálastofnunar og annarra, í því að vernda störfin.

Ég ætla ekki að hafa langa ræðu um það en mér finnst við samt þurfa að fara yfir nokkur aðalatriði í þessu máli. Upphaflega kom það náttúrlega til, eins og ég sagði, til að vernda störfin og við hvöttum fyrirtækin til að koma með ríkisvaldinu í að vernda störf. Að sjálfsögðu gagnaðist þetta fyrirtækjunum líka og hjálpaði mörgum sem höfðu ekki efni á uppsagnarfresti strax í upphafi og til að draga úr launaútgjöldum fyrirtækisins. En um leið stóðu mörg fyrirtæki, sem voru kannski ekki í rekstrarvanda þá en höfðu ágætis eigið fé, frammi fyrir gríðarlegri óvissu. Slík fyrirtæki, hefði þessi leið ekki komið til, hefðu mörg hver, ef ekki flest, gripið til þess ráðs að segja upp fólki til að takmarka áhættu sína fram í tímann meðan óvissan var hvað mest. Því var þessi leið svo góð og stjórnvöld hvöttu fyrirtæki til að taka þátt í henni. Þá var reynt að hafa leiðina sem almennasta þannig að hægt væri að taka ákvörðun hratt um hvort nýta ætti hana eða ekki og vinna úr þessu.

Það hefur aðeins verið kvartað undan því hvað það taki langan tíma að vinna úr málunum hjá Vinnumálastofnun og að þetta hafi verið óljóst. En það hefði getað orðið enn flóknara ef málið hefði ekki verið svona almennt. Ég vil því segja að ég ætla ekki að útiloka að einhver fyrirtæki hafi misnotað þessa leið eða ekki haft rétt við. Ég ætla ekki að útiloka það. Það getur verið af mörgum ástæðum og á mismunandi hátt hvernig það var misnotað. Í flestum tilfellum held ég að launamaðurinn, stéttarfélögin og stjórnvöld hafi brugðist við ef stjórn eða fyrirtæki voru að misnota þetta eitthvað eða misskildu leiðina. Það var oftast leiðrétt og var ekki við lögin að sakast heldur. Leiðin var almenn og málin skýrðust og það var lagað ef einhverjir voru að misnota sér þetta. Ég held að þau fyrirtæki séu ekki gríðarlega mörg þó að þau séu til. En að fara að nefna í löngum röðum öll þau fyrirtæki, hvort sem þau eru stór eða smá, sem eru vel stæð og eru kannski með margar mismunandi rekstrareiningar innan hvers fyrirtækis, að fara að gagnrýna þau og setja þau á einhvern svartan lista og ganga þannig að orðspori þeirra, ég tel að það hafi ekki að öllu leyti verið rétt að gera það út af því sem ég sagði hér áðan, að að öðrum kosti hefðu þessi vel stæðu fyrirtæki í upphafi, með mjög mikla óvissu fyrir framan sig, tekið ákvörðun fyrir sitt félag og sagt fólki upp. En út af þessari leið var ráðningarsambandið framlengt og fyrirtækin skuldbundu sig til að hafa ráðningarsambandið lengur í gildi. Það gagnaðist Atvinnuleysistryggingasjóði og það gagnaðist launamanninum. Mér finnst þetta skipta gríðarlegu máli og við verðum að hafa það í huga þegar við erum að ræða það hvort þetta hafi verið misnotað eða ekki.

Þar komum við líka inn á nokkur hugtök. Var þetta fyrir fyrirtæki í rekstrarvanda á sama tíma og ríkisstjórnin sagðist ætla að bjarga lífvænlegum fyrirtækjum? Þarna finnst mér við þurfa svolítið að skilja á milli og svo þurfum við líka að skilja á milli þess hvort við vorum að fjalla um tekjufall eða rekstrarvanda þar. Það er hvor sinn vandinn. Fyrirtæki geta orðið fyrir miklu tekjufalli þó að það sé ekki endilega í rekstrarvanda. Mér finnst þetta ekki vera nógu skýrt í skýrslu Ríkisendurskoðunar, þ.e. munurinn á þessu, og því hef ég ekki alveg náð utan um það þegar fólk er að tala um að stöndug fyrirtæki hafi verið að misnota leiðina, hvernig þau voru að misnota hana eða hvert nákvæmlega brotið var, af því að við leggjum mismunandi skilning í þetta. Við þessa leið er fyrst og fremst verið að styðja launamanninn, launamaðurinn fær greiðsluna en ekki fyrirtækin. Fyrirtækin fá ekki eina krónu til sín, en eins og ég sagði áðan nutu sum fyrirtækin góðs af því, því að þá hefði verið minni launakostnaður hjá þeim. Hinn kosturinn hefði kannski verið að nýta eigið fé og segja fólki upp og draga úr áhættunni lengra fram í tímann. Þetta þurfum við að hafa í huga og ég vildi fara svolítið yfir það hér í upphafi.

Það næsta sem ég vil fjalla um er að mikið hefur verið rætt um það hér í dag að þetta frumvarp og hvernig það er úr garði gert ýti fólki eða fyrirtækjum yfir í að nýta sér uppsagnarleiðina. Það held ég að sé að mjög litlum hluta, alveg sama hvað manni finnst um öll þessi skilyrði, flækjustig og annað slíkt og muninn á þeim, því að það er bara þannig að til að komast inn í hlutastarfaleiðina þarf tekjusamdrátturinn ekki að vera nema 25%, þannig að það er svolítið greiðari leið inn en skuldbindingin er að borga, eftir 1. júlí, 50% af laununum sem fyrirtæki. Þannig að öll þau fyrirtæki sem eru með minni tekjusamdrátt en 75% eiga möguleika á að fara inn í hlutastarfaleiðina en ekki inn í uppsagnarleiðina. Þau hafa ekkert val á milli leiða. Ef fyrirtæki eru með minna en 75% tekjusamdrátt hafa þau ekki val um uppsagnarleiðina og því er ekki hægt að segja að eitthvað í þessu frumvarpi sé að ýta þeim fyrirtækjum yfir í hina leiðina af því að þau eiga ekki möguleika á því.

Svo er það hitt. Ef fyrirtæki með 75% tekjusamdrátt eða meiri þá efast ég um að það hafi eitthvert val um það að fara inn í hlutastarfaleiðina af því að þau eiga ekkert eigið fé fyrir 50% af laununum. Þar af leiðandi er búið að draga gríðarlega mikið úr menginu sem er þarna á milli. Mér finnst þetta skipta miklu máli.

Rétt í lokin ætla ég að fara aðeins yfir skilyrðin. Ég tek undir það að mikilvægt var að setja viðurlög. Ef einhver var sannarlega að misnota þetta eða brjóta lögin þá eiga að vera viðurlög. Ég tek undir með ríkisstjórninni að mikilvægt er að hafa virkt eftirlit þannig að þeir sem eru að nýta sér þetta viti að eftirlit sé í gangi og að það séu einhver viðurlög. Það er svolítið mikilvægt atriði.

En svo kemur að skilyrðunum. Skilyrði eru annað en viðurlög og ég er einn af þeim sem finnst þurfa að fara varlega með skilyrðin. Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað verkalýðshreyfingin og talsmenn launþega hafa lagt mikla áherslu á að þessi skilyrði séu inni. Því hef ég með breytingartillögum meiri hlutans, sem mér sýnist minni hlutinn að nokkru leyti taka undir líka, lagt til að reyna að draga aðeins úr skilyrðunum en samt mætast á miðri leið gagnvart þeim sem hafa komið að málinu, af því að þessi mál hafa verið unnin í töluverðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, bæði launþegana og atvinnurekendurna, og þetta er einhver niðurstaða. En ég segi það alveg hér að ég býst við því að þessi skilyrði og þessi umræða, að fyrirtækin séu sett á svartan lista og annað af því að þau eru með samfélaginu að taka þátt í að vernda störfin, geti spilað inn í að færri nýti sér þessa leið hafi þeir á annað borð möguleika á því. Fyrirtækin munu því horfa á þetta. Á ég að fara að undirgangast þessi skilyrði? Eða á ég að taka einhverja aðra ákvörðun, sem er ekki endilega fyrir uppsagnarleiðina? Ég held að fæst þeirra hafi einhvern möguleika á að fara inn í hana. Þetta þarf að ræða. En þetta var svona viss málamiðlun og það hefur verið dregið aðeins úr þessu sem ég tel að nálgist betur markmið frumvarpsins.

Það hefur líka verið rætt aðeins um sjálfstætt starfandi. Það kom skýrt fram fyrir nefndinni að þeir sitja alveg við sama borð hvað varðar upphæðir frá Atvinnuleysistryggingasjóði og þeir sem fara hlutabótaleiðina. Þeir sem eru sjálfstætt starfandi á eigin kennitölu sitja með sömu upphæðir. Það er bara aðeins annað ferli og þar er verið að notast við það almenna kerfi sem er til til þess að minnka flækjustigið, auka afgreiðsluhraða og annað slíkt. Það er bara þannig að allir sem eru inni í þessu kerfi þurfa að vera virkir í atvinnuleit, sem dæmi, og það getur alveg verið ankannalegt fyrir margar mismunandi stéttir. En það hefur gengið upp hérna og ég held að það sé margt svona sem við eigum að reyna að breyta sem minnst til að hafa kerfið sem skýrast og minnka flækjustigið svo að þetta gangi sem best fyrir sig.

Að lokum ætla ég bara að minna á að það er launþeginn sem fær greiðsluna, ekki fyrirtækin. Þess vegna er svolítið erfitt að tala um einhverjar endurgreiðslur eða að fyrirtækin eigi að endurgreiða þetta og annað slíkt því að í uppsagnarleiðinni, það er munur á þessum leiðum, þurfa fyrirtækin að tekjufæra styrkinn sem dregur þá úr skattalegu hagræði, eins og í uppsöfnuðu tapi eða öðru slíku. Þau þurfa að tekjufæra þetta og uppfylla viss skilyrði á meðan verið er að tekjufæra það yfir einhvern tíma, en það er ekki í þessu, af því að það er launþeginn sem fær fjármunina. Ástæðan fyrir því að fyrirtækin hafa boðist til að endurgreiða er náttúrlega til að reyna að bjarga orðspori sínu eftir að hafa komist á svartan lista fyrir að hafa tekið þátt í því með stjórnvöldum að vernda störfin.

Ég vona að ég hafi náð að útskýra þetta að einhverju leyti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili og vil árétta að þetta hefur verið góð leið og fleiri úrræði hafa bæst við. Tímarnir breytast og þróast og vonandi gengur okkur vel að vinna úr því ástandi sem upp er komið.