150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um framlengingu hlutabótaleiðar og ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns. Meginmarkmiðin eru að verja ráðningarsamband og verja störf. Ég er sammála hv. þingmanni um að heilt yfir tókst þetta vel í fyrstu atrennu og ég held að hv. velferðarnefnd hafi gert vel. Það voru allir í fullkominni óvissu. Það er í raun meginniðurstaða skýrslu ríkisendurskoðanda. Þetta úrræði var alls ekki hnökralaust og við eigum að horfa á það og það er sjálfsagt að setja einhver skilyrði nú þegar við vitum eitthvað meira um stöðuna. Ég verð samt að segja, áður en ég ber fram spurningar til hv. þingmanns, af því að ég hygg að það sitji í honum sem við ræðum hér, að þessi skilyrði gangi of langt. Segjum bara eins og er; skilyrðin ganga í raun og veru gegn meginmarkmiðum frumvarpsins. Þannig er það bara. Aðstoð við launamenn með slíkum stuðningi, launamenn sem gætu haldið starfi hjá fyrirtækjum með tekjufall á bilinu 25–75% — það virkilega í rekstri — þýðir að ráðningarsambandið er í uppnámi.

Það er eitt sem ég var ekki sammála hv. þingmanni um í ræðu hans. Þessi úrræði, laun í uppsögn, eru eðlisólík. Hver er raunveruleikinn? Raunveruleikinn er nefnilega sá að nú er maður sennilega þvingaður í það, ef maður horfir á þessi skilyrði, að segja fólki upp. Punktur.