150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:29]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með öllum þeim umræðum sem hafa farið hér fram í dag um þetta stóra mál sem við höldum nú áfram með og sem er nokkurs konar arftaki fyrri hlutabótaleiðar. Mig langar aðeins að byrja á að fjalla um fyrri hlutabótaleiðina vegna þess að þegar við vorum með það mál í velferðarnefnd tók ekki mjög langan tíma hjá okkur að komast að góðu samkomulagi á þá leið að við gátum rætt okkur niður á nokkurs konar viðunandi niðurstöðu. Það var ekki mikið sem bar í milli, vil ég segja. Einn af þeim hlutum sem mér fannst við öll vera með í huga var að við myndum huga að þeim sem kallast sjálfstætt starfandi. Svo kom það nú í ljós að svo var ekki og þeir sem teljast sjálfstætt starfandi og einyrkjar hafa svo sannarlega mátt bíða eftir úrlausn sinna mála og teljast varla hafa rétt til að nýta sér hlutabótaleiðina. Það er m.a. þess vegna sem ég ákvað að vera með á minnihlutaáliti sem við leggjum hér fram, að mestu minni hluti velferðarnefndar, þar sem tekið er til þeirra sem eru sjálfstætt starfandi. Mig langar sérstaklega að nefna leigubílstjóra í þessu sambandi vegna þess að í mínum huga hafa þeir sannarlega sinnt framlínuþjónustu. Þar sem ég bý á Akureyri hafa þeir tekið að sér, oft við erfiðar aðstæður, að flytja fólk og flytja vörur og hreinlega flytja nauðsynjar. Ég er mjög áfram um að minnihlutaálit okkar fjalli sérstaklega um þá sem eru sjálfstætt starfandi og jafnvel aðra svokallaða einyrkja.

Mig langar aðeins að fara aftur í það hversu vel okkur tókst að ná saman um fyrri hlutabótaleiðina. Við sáum ekki fyrir það sem síðar kom upp, þ.e. að fyrirtæki nýttu sér leiðina sem með einhverjum hætti áttu kannski ekki að gera það. Samt fóru þau fyrirtæki að lögum en við getum velt því fyrir okkur hvort það hafi verið siðlegt af þeim að nýta sér hlutabótaleiðina. Flest ef ekki öll þessi fyrirtæki hafa endurgreitt eða með einhverjum hætti gert bót á því sem þau lögðu upp með og ég vil byrja á að hrósa þeim fyrir það. Ég vil jafnframt taka undir áhyggjur sem Ríkisendurskoðun hafði af afgreiðslu okkar þegar við náðum þessari niðurstöðu af því að það stingur í augu að lesa að öll velferðarnefnd hefði verið á því að reyna að hleypa sem flestum að úrræðinu, fyrstu hlutabótaleiðinni, vegna þess að við sáum ekki fyrir að sú staða gæti komið upp sem svo varð. En nóg um þetta.

Ég nefndi ríkisendurskoðanda og við fengum mjög góða skýrslu frá honum og góðar ábendingar og jafnvel mjög vel ígrundaðar. Það er ekki oft sem maður les svona efni sem maður skilur, liggur við, eftir fyrsta lestur. En það var þannig í þessu tilfelli og það hjálpaði okkur mjög mikið og sérstaklega vil ég segja að það hafi hjálpað okkur í minni hlutanum til að móta okkar álit. Þegar ég las yfir meirihlutaálitið gat ég ekki séð að þeim hafi þótt jafn auðlesanlegt það sem ríkisendurskoðandi sagði. Ríkisendurskoðandi ákvað að eigin frumkvæði að fara í eftirlit og komst þá að því að Vinnumálastofnun hafði þá þegar ætlað að hefja rannsókn á þessu úrræði. En niðurstaðan hafði orðið sú að Vinnumálastofnun hafði hug á því að rannsaka með haustinu hvernig til hefði tekist. Nú vil ég alls ekki sakast við Vinnumálastofnun vegna þess að ég held að þau hafi sannarlega unnið kraftaverk þar, eins og fram hefur komið hér í dag. Ég vil kannski frekar halda því fram að ráðuneyti félagsmála, sem heldur á þessu öllu saman, hefði átt að standa sig og sjá til þess að Vinnumálastofnun væri gert það kleift samhliða því hamfaraástandi sem starfsfólkið stóð frammi fyrir. Við höfum notið þess frá Vinnumálastofnun, og ég vil líka nefna Persónuvernd, að báðir þessir aðilar og jafnvel Skatturinn mættu á fund velferðarnefndar með engum fyrirvara og svöruðu mörgum spurningum sem við höfðum þá stundina, sem voru jafnvel ekki einu sinni fullmótaðar, þannig að við gátum enn frekar tekið til allt sem við vildum segja.

Ég ætla ekki að lengja þetta mikið. Ég hef vissulega einhverjar áhyggjur af því hvernig til tekst í þetta sinn. En ástæða þess að ég ákvað að styðja minnihlutaálit er sérstaklega sú að mér finnst minni hlutinn virkilega hafa kafað ofan í málið og tekið ábyrgð, ég vil nota það orð. Ég er þó með fyrirvara við 2. málsgrein c-liðar 1. gr., sem fjallar um lágskattaríki, og það er ekki af því að ég sé endilega á móti því úrræði sem þar er fjallað um heldur tel ég að það sé flókið að ætla að skilgreina öll þau hugtök sem finnast á þessu sviði og ég get ekki ákveðið, á þeim skamma tíma sem okkur er gefinn, hvernig best er að haga því. Á sama tíma vil ég líka taka fram að breytingartillaga meiri hlutans varðandi þessa sömu grein er alls ekki fullnægjandi heldur. Það endurspeglast kannski í því að við höfum ekki þann tíma sem við myndum vilja hafa til að vinna þetta álit okkar vel. Ég er að sjálfsögðu ánægð með breytingartillögu minni hlutans sem fjallar um sjálfstætt starfandi, og þá sérstaklega hvað varðar leigubílstjóra, eins og ég hef talað um hér áður, og ég tel að það sé mjög mikilvægt að við náum að fá það í gegn hér í þinginu og það verði samþykkt.

Ég þakka öllum í velferðarnefnd fyrir þessa vinnu og vona sannarlega að við náum góðri niðurstöðu.