150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[21:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni málsins fyrir kynningu á nýrri breytingartillögu meiri hluta sem lýtur eingöngu að því að einfalda dagsetningar en engu öðru. Mig langar að gefnu tilefni að lesa hér niðurlag erindis Alþýðusambands Íslands sem barst öllum þingmönnum í dag, með leyfi forseta:

„Að lokum gerir Alþýðusambandið alvarlega athugasemd við að fyrirtækjum séu sett mismunandi skilyrði eftir því hvort þau nýta sér hlutabótaleiðina eða aðstoð við greiðslu launa á uppsagnarfresti. Með þessu móti er löggjafinn að skapa beinan hvata til að segja fólki upp fremur en að nýta hlutabótaleiðina sem þó er mun æskilegri fyrir launafólk, enda viðhelst þá ráðningarsamband. Það er tækifæri til að koma í veg fyrir þetta slys.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki ástæðu fyrir meiri hlutann til að kanna hvort ASÍ hafi mögulega eitthvað til síns máls varðandi misræmi á skilyrðum í þeim tveimur frumvörpum sem við afgreiðum hér í kvöld, sem skapi hvata til uppsagna í stað þess að viðhalda ráðningarsambandi.