150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[21:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þau tvö frumvörp sem við höfum verið að fjalla um hér í dag, varðandi stuðning á uppsagnarfresti og þessa hlutabótaleið, eru tvö eðlisólík mál að stórum hluta, hvað varðar aðgengi fyrirtækja að hvorri leið fyrir sig. Fyrirtæki verður að vera með 75% tekjufall til að geta óskað eftir stuðningi við greiðslur til launamanna á uppsagnarfresti en ef fyrirtæki eða launamaður óskar eftir því að fara hlutabótaleiðina er nægjanlegt að fyrirtæki sé með 25% tekjufall. Þetta er mikill munur. Það er líka þannig að þegar fyrirtæki fara stuðningsleiðina varðandi uppsagnarfrest fá fyrirtækin sjálf greiðslur á móti þeim greiðslum í uppsagnarfresti sem launamaðurinn fær. Fyrirtækin eru að fá það til sín, þann stuðning. Í frumvarpinu sem við fjöllum um hér, um hlutabótaleiðina, rennur stuðningurinn í vasa launamannsins.

Ég held að það sé mjög erfitt að segja til um það á þessari stundu hvað fyrirtæki gera, hvort þetta hvetur þau til að fara frekar í uppsagnir. Ég tel að þetta ætti ekki að verða til þess að ýta undir uppsagnir nema fyrirtækin séu hvort sem er komin á þann stað að þau sjái ekkert fram undan annað en að þurfa að segja sínu fólki upp. En fyrirtæki sem eru með 25% tekjufall geta ekki fengið stuðning frá ríkinu í hinni leiðinni.