150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[22:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með frumvarpinu er verið að trappa niður hlutabótaleiðina eins og sumir stjórnarþingmenn hafa komist að orði. Verið er að auka við þau skilyrði sem launamenn þurfa að uppfylla, þ.e. verið er að hækka hlutfallið sem þeir þurfa að vinna til að hafa aðgang að hlutabótaleiðinni. Á sama tíma er ekki verið að þrengja skilyrði þeirra fyrirtækja sem nýta sér eignir í skattaskjólum til að nýta sér úrræðið. Það ásamt því að verið er að auðvelda fyrirtækjum að segja starfsfólki sínu upp finnst mér fullkomið ábyrgðarleysi og ég ætla ekki að taka ábyrgð á því. Þar af leiðandi sit ég hjá við afgreiðslu frumvarpsins, að undanskildri ágætri breytingartillögu frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur um að taka fyrir að fyrirtæki sem nýta sér skattaskjólsfélög geti nýtt sér hlutabótaleiðina, sem ég tel til bóta.