150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[22:05]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við í Miðflokknum munum sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins. Það hefur ekki verið hlustað nægjanlega mikið á varnaðarorð okkar og ekki tekið nægilega mikið tillit til svartrar skýrslu ríkisendurskoðanda. Það er líka alvarlegt að þingheimur sé í þeirri stöðu að málið sé til afgreiðslu eftir lokun banka á síðasta viðskiptadegi mánaðar, á þeim degi sem félög á almennum markaði áttu flest að borga út laun. Það er margt ágætt í málinu en vankantarnir sem ekki voru sniðnir af eru þeirrar gerðar að Miðflokkurinn mun sitja hjá við afgreiðslu þess að undanskildum þeim tillögum sem koma frá minni hluta að mestu. Mörg góð mál hafa komið hér fram frá ríkisstjórninni. Þau eru til bóta en það þarf að gera betur.