150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[22:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hlutabótaleiðin tókst vel í fyrstu atrennu. Það er í raun og veru það sem skýrsla ríkisendurskoðanda staðfestir, þó ekki hnökralaust, það skal viðurkennast. Skilyrðin sem sett eru í frumvarpinu ganga að mínu viti of langt. Þau ganga gegn því meginmarkmiði að verja ráðningarsamband, að verja störf, að gefa þau skilaboð til þeirra sem kunna að styrkja efnahag fyrirtækja til þess að svo megi verða. Þau eru of neikvæð, þau ganga of langt. Ég vil þó segja að sú breytingartillaga við breytingartillögu meiri hlutans sem fram kemur nú síðast, er til bóta. Hún sendir jákvæðari skilaboð. Ég mun því styðja þá breytingartillögu. Ég mun hins vegar sitja hjá þegar við greiðum atkvæði um skilyrðin en styðja málið í heild sinni í von um að áfram (Forseti hringir.) verði hægt að verja störf.