150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

uppbygging að loknum veirufaraldri.

[13:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Íslendingar hafa náð markverðum árangri í baráttu sinni við kórónuveiruna. Það höfum við gert með því að taka ákvarðanir frá degi til dags með það að leiðarljósi að forgangsraða heilbrigðissjónarmiðum og bjarga mannslífum í baráttu okkar við faraldurinn. Nú blasa hins vegar við líka þær lausnir sem við þurfum að finna til að glíma við þær efnahagsþrengingar sem munu verða óhjákvæmilegar í kjölfar faraldursins og allar þjóðir standa frammi fyrir, mismiklum þó. Það sem ríkisstjórnin hefur gert er að hún hefur ráðist í bráðaaðgerðir til þess að styðja við íslenskt atvinnulíf og íslenskt launafólk því að í þessu tilviki fara hagsmunir þessara aðila að einhverju leyti saman. Það get ég sagt með sanni eftir að hafa átt gríðarmörg samtöl við bæði fulltrúa launafólks og fulltrúa atvinnurekenda í gegnum þessar hremmingar, að það skiptir íslenskt launafólk máli að atvinna sé tryggð. Það höfum við m.a. gert með hlutastarfaleiðinni en við sáum líka fram á að hún ein og sér myndi ekki duga. Því var samþykkt á Alþingi nú fyrir helgi frumvarp um laun í uppsagnarfresti þar sem eigi að síður er gerð krafa um að viðhalda ráðningarsambandi við launafólk og raunar gengið lengra til að koma til móts við Alþýðusamband Íslands í þinglegri meðferð. Þarna erum við að vinna að bráðaaðgerðum og á sama tíma erum við að fjárfesta í auknum mæli á árinu 2020 í bæði því sem við getum kallað hinar hefðbundnari fjárfestingar sem yfirleitt eru tilbúnar til að ráðast í, svo sem samgönguframkvæmdir, sem ég hef heyrt fulltrúa allra flokka krefjast aukinna framkvæmda í, þannig að það er gott að nýta þetta tækifæri, en líka með auknum fjárfestingum í nýsköpun, grunnrannsóknum, orkuskiptum og skapandi greinum.

Ég hef síðan í hyggju að boða fund í útvíkkuðu þjóðhagsráði á næstu vikum þar sem á hefðbundnum fundum sitja fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga og ríkis. (Forseti hringir.) Þar mun ég einnig boða til formenn allra flokka á Alþingi því að þar er ætlunin einmitt að fara að ræða framtíðaráform fyrir samfélag okkar.