150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

brot á jafnréttislögum.

[13:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er auðvitað margt sem við höfum verið að gera í jafnréttismálum, af því að hv. þingmaður spyr, og þessi mínúta nægir mér ekki til að fara yfir allt það sem verið er að gera. Í dag er til að mynda til umræða um forvarnaáætlun gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri misneytingu og áreitni. Það er gríðarstórt mál sem við höfum verið að vinna að og er von á lagabreytingum á næsta þingi, til að mynda hvað varðar kynferðislega friðhelgi. Ofbeldismálin hafa verið í forgrunni samhliða því að innleiða það sem gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar varðandi jafnlaunavottun. Þetta er alveg gríðarstór málaflokkur þar sem við erum að ná árangri á ólíkum vígstöðvum.

Ég vil hins vegar segja það við hv. þingmann hvað varðar úrskurði kærunefndar jafnréttismála — og ég tek það aftur fram að hæstv. menntamálaráðherra þarf auðvitað að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í þessu máli og hún verður vafalaust hér til svara síðar meir til að reifa það — að ég held að í stóru myndinni, þegar við tökum þá úrskurði sem fallið hafa af hálfu kærunefndar jafnréttismála, skipti máli að við íhugum hvernig við getum staðið okkur betur í að leiðsegja stjórnsýslunni til að koma í veg fyrir brot.

Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á eru bætur dæmdar úr vasa skattgreiðenda vegna málsmeðferðar. Við þurfum hins vegar að fara í miklu virkari vinnu í því að koma í veg fyrir brot.