150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

jöfnun raforkukostnaðar.

[14:15]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Auðvitað er hægt að horfa á þá fjármuni sem verða til í Landsvirkjun fara inn í ríkissjóð í formi arðgreiðslna og svo tökum við ákvörðun um það í hvað þeir peningar eru nýttir. Að mínu viti er það eðlilegra vinnulag. Hitt er bara fyrirtæki sem framleiðir raforku og við ættum ekki að taka með beinum hætti þaðan og færa það yfir í ríkissjóð.

Hitt er síðan umræða sem við höfum ekki tekið mikið í þessum sal en mér þætti mjög áhugavert að taka, af því að við erum annars vegar með framleiðslu á raforku, flutninginn, dreifinguna og söluna, þ.e. að við erum í þessu litla landi með sex dreifiveitur. Þær eru auðvitað misjafnar og misstórar og sumar eru ekki í fullri eigu ríkisins. En ef við leyfum okkur að horfa á einhverjar kerfisbreytingar á því hvernig við byggjum upp dreifikerfið og hvernig við tryggjum að allir hafi raunverulega jafnan aðgang að því, að það sé nægilega traust alls staðar og ekki sé mikill munur á því hvað fólk borgar fyrir það, þá mætti alveg a.m.k. að nefna það og hugsa það hvort við getum einfaldlega farið í einhvers konar hagræðingu, séð hversu mikill kostnaður fer í að reka sex dreifiveitur í landinu eða hvort þær megi einfaldlega vera færri, hvort með einhverjum hætti megi fara í kerfisbreytingu á því hvernig við rekum þessi kerfi.