150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[14:36]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er þingsályktunartillaga um kynferðislegt ofbeldi og áreitni fyrir þetta langt tímabil. Ég spyr hv. þingmann: Telur hún virkilega að fjármagnið sem ætlað er í þetta muni duga? Þegar ég fór að horfa á þann rosalega málaflokk sem varðar fötluð börn sem eru í mjög viðkvæmri stöðu gagnvart kynferðisofbeldi, eins og hefur sýnt sig, og þá sem þar eru taldir upp, eins og hinsegin börn og börn af erlendum uppruna, þá mundi ég telja að þessi fjárveiting gæti bara dugað í þann málaflokk. Og þyrfti jafnvel meira til vegna þess að ég set þetta í samhengi við það að við vorum að samþykkja 5.000 kr. ávísun á alla landsmenn, um 1,5 milljarðar, ef ég man rétt. Ef ég set þá upphæð í þennan málaflokk, sem skiptir svo gífurlegu máli að við hugum virkilega vel að vegna þess að við líka vitum að það er annað stórt vandamál sem er í gangi, það er stafrænt ofbeldi á samfélagsmiðlum. Það eitt og sér er risamál. Þannig að ég spyr hv. þingmann: Finnst henni þessi fjármögnun nægjanleg? Eins og mér sýnist þetta vera sett fram finnst mér þetta eiginlega vera svona spariplagg, ekki alvöru. Ef við ætlum að láta taka okkur alvarlega og gera þetta almennilega þá vona ég að þetta sé bara fyrsta skrefið.