150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[14:44]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Mig langaði til að taka til máls varðandi þetta mál. Ég er mjög hrifin af þessari tillögu og þessari vinnu. Markmiðið er gott, að ætla að uppræta kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. Ég er hjartanlega sammála því að það sé dálítið einkenni á vanda þessa málaflokks að of lítil áhersla hafi í gegnum tíðina verið lögð á forvarnir og við séum sem samfélag, og líka þeir sem starfa innan þeirra kerfa sem eiga að taka á þessum brotum, hvort sem það er innan barnaverndar- eða heilbrigðiskerfisins, lögreglu eða réttarkerfis, allt of föst í því að vera alltaf að bregðast við tragískum málum sem hefði mátt koma í veg fyrir. Forvörnum, samkvæmt þessari tillögu, er beint að börnum og ungmennum, sem ég tel jafnframt vera mjög jákvætt.

Það er ánægjulegt að sjá að hér sé verið að setja heildstæða stefnu hvað þetta varðar. Öll okkar afbrotatölfræði, allar tölur frá barnaverndaryfirvöldum, sjúkrahúsum og heilbrigðiskerfinu, segir okkur að þetta sé nauðsynlegt og þetta verður vonandi líka gagnlegt. Stóra markmiðið hlýtur að vera það að með auknum skilningi og auknu læsi takist okkur sem samfélagi, og þeim sem starfa með börnum, einfaldlega að fækka þessum málum. Það er kannski annað atriði hvort okkur takist, eins og markmið tillögunnar er, að uppræta það með öllu. Ég held að ofbeldi sé þannig meinsemd að við þurfum alltaf að nálgast það vandamál með þeim gleraugum að það verði ekki svo auðveldlega upprætt með öllu.

Ég verð hins vegar að fá að taka undir það áhyggjusjónarmið, sem hér hefur þegar heyrst, sem lýtur að fjármögnuninni. Það er nú einfaldlega þannig með alla stefnumótun og alla pólitík og raunar flest okkar verkefni að fjármögnunin hefur allt um það að segja hversu mikill kraftur og dampur fylgir stefnunni, hvort henni verði búin sú umgjörð að henni sé raunverulega hægt að fylgja úr hlaði og fylgja eftir. Ég hef þegar heyrt svörin við þessum áhyggjuröddum og er ánægjulegt að heyra að sá skilningur er fyrir hendi að hægt sé að mæta því með samtali og taka þannig á því. En ég verð að segja að ég held að þetta sé raunverulegt áhyggjuefni hvað þessa góðu tillögu varðar.

Ég er þeirrar skoðunar að stjórnvöld sem taka þennan málaflokk alvarlega láti fjármagnið fylgja og sýni þannig vilja sinn í verki. Það finnst mér reyndar eiga við um allar stofnanir, ekki bara þær sem falla undir þessa tillögu; að við horfum í auknum mæli til barnaverndaryfirvalda, að við horfum á heilbrigðiskerfið, lögregluna, ákæruvaldið og dómstólana. Það er staðreynd og það er veruleikinn í dag að fjármögnun þess kerfis sem tekur á afleiðingum ofbeldis, t.d. gagnvart börnum, hefur ekki verið næg. Þar nefni ég aftur þær stofnanir sem ég er þegar búin að nefna, lögreglu, ákæruvald og dómstóla. Það er því miður reyndin og það er því miður staðan að í dag er það að gerast aftur og aftur hjá dómstólum landsins að í málum þar sem sakfelling náðist fram, þar sem gerandi, sakborningur, er dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn barni, sjáum við það henda, og það heyrir því miður ekki til algjörrar undantekningar, að refsing er milduð vegna þess sem er kallað, og stendur undir nafni sem slíkt, „óhóflegs dráttar og málsmeðferðartíma“. Skýringin á því er einfaldlega sú að það eru of fáir starfsmenn sem sinna of þungum og of mörgum verkefnum.

Ég myndi vilja sjá það gerast sem framhald af þessari góðu tillögu og framhaldsvinnu af þessu góða verkefni að farið sé að líta heildstætt til þess hvar afleiðingar þessa ofbeldis koma niður innan kerfisins alls og að við verðum þess umkomin að bregðast við því hratt og vel þegar það gerist. Við horfum þá frá öðrum endanum á forvarnirnar og reynum markvisst að fækka brotum en búum samhliða þannig um hnútana að kerfið sé þess umkomið að taka á þeim málum sem upp koma. Það er sannarlega ósk mín að þessi góða heildarstefna fái þær forsendur að hún geti staðið undir nafni. Að því sögðu, af því að ég er búin að flagga áhyggjum mínum af fjármögnun áætlunarinnar, vil ég nefna það sérstaklega að ég fagna þessu máli.