150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[14:50]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða tímamótamál eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir nefndi það í sinni ræðu, mikilvægt mál. Við hefðum að sjálfsögðu fyrir löngu átt að vera farin þessa leið en góðir hlutir gerast hægt og svona kerfisbreytingar taka gríðarlega mikinn tíma vegna þess að hefðir og venjur og annað, þar sem kynferðisofbeldi og kynferðisleg áreitni hefur að hluta verið viðurkennt, eru partur af menningunni, á sér svo djúpstæðar rætur og það tekur tíma að vinda ofan af þessum hlutum.

Tillagan sem um ræðir, forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025, er stórt skref í rétta átt. Það sem mér þykir best við þessa áætlun, virðulegi forseti, er að í henni eru mjög skýr markmið, ábyrgðir eru skýrar og hana ber að árangursmeta reglulega og endurmeta. Það gerir áætlunina í mínum huga mjög trúverðuga og ég tel að hún muni skila okkur fram á við.

Mig langar til að taka undir með hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur sem talaði á undan mér og benti á málsmeðferðir í réttarkerfinu þar sem venja er að dómar fyrir kynferðisbrot séu jafnvel mildaðir vegna þess að dráttur verður á málsmeðferð. Við vitum það öll að þolendur kynferðisbrota draga það oft jafnvel árum saman að kæra, skömmin er svo mikil og niðurbrotið að það tekur tíma, oft með mikilli hjálp sérfræðinga, að ná áfallinu og skaðanum upp á yfirborðið. Fólk viðurkennir í raun ekki glæpinn fyrir sjálfu sér og kærir því seint. Svo bætist við hæg málsmeðferð innan réttarkerfisins, m.a. vegna mannfæðar og jafnvel vegna þekkingarleysis og skilningsleysis á eðli málanna. Hv. þingmaður benti á að það þyrfti að fara fram, til viðbótar þessu og kannski í framhaldinu, heildstæð skoðun á þessum þáttum. Þetta er jú hluti af kerfinu og við þurfum að hafa þetta í huga í stóra samhenginu.

Í gögnum málsins er margt að finna og ekki síst mikinn fróðleik. Hér er gerð mjög góð grein fyrir þessum almennu aðgerðum og eins og ég sagði áðan er mjög skýrt hverjir bera ábyrgð og kostnaðarmat og annað. Þó hafa, eins og fleiri hafa nefnt, komið upp ákveðnar efasemdir varðandi kostnaðarmatið. Ég heyrði að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir talaði um það í sinni ræðu að það þyrfti að vega þann þátt líka þegar verkefnin fara af stað og meta og bregðast við. Það kemur einnig fram í áliti meiri hlutans að við þurfum að sjálfsögðu að bregðast við og fjármagna þessi verkefni eins og þurfa þykir. En við erum komin af stað og það er vel. Ég hef nefnt hér mikilvægi þess að vera með eftirfylgni og meta árangurinn reglulega.

Í greinargerð málsins er rifjaður upp aðdragandi þessa máls og þar stendur, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða með það að markmiði að sporna gegn slíku ofbeldi sem og að bregðast við afleiðingum þess. Í þessu samhengi má nefna aðgerðir sem lúta að málsmeðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, þingsályktun um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum sem fram fór á árunum 2012–2015 og stefnumótun um kynferðislega friðhelgi (stafrænt kynferðisofbeldi). Þrátt fyrir viðamikið starf hefur aldrei verið mótuð heildstæð stefna um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.“

Þetta er svolítið merkilegt. Svo segir áfram:

„Fjölmargir starfshópar hafa þó kallað eftir því auk þess sem ríkar kröfur hvíla á íslenskum stjórnvöldum vegna alþjóðlegra skuldbindinga …“

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór mjög skilmerkilega yfir það í sinni ræðu þannig að ég ætla ekki að endurtaka það. En í greinargerð málsins eru skuldbindingar okkar útlistaðar mjög nákvæmlega og önnur lög sem við höfum staðfest hér á Alþingi sem miða í þessa átt. Þetta er því framhald af mjög mörgum og viðamiklum aðgerðum og löggjöf sem við höfum þegar samþykkt og undirgengist.

Kafli greinargerðarinnar um markmið og afmörkun er mjög góður en þar er einmitt farið betur yfir samræmingu við aðrar aðgerðir. Það er kannski óþarfi að lesa það allt saman upp, þetta er mjög áhugavert. En það sem er kannski skelfilegast í þessari greinargerð er tölfræðin sem fjallað er um í kaflanum um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni, herra forseti. Með leyfi forseta, langar mig að lesa stuttan kafla upp úr þeirri umfjöllun. Hér segir:

„Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni er veruleg ógn við líf og heilsu barna og ungmenna á Íslandi. Samkvæmt tölfræði Evrópuráðsins verða eitt af hverjum fimm börnum fyrir kynferðislegu ofbeldi í einhverri mynd. Nýleg tölfræði sem UNICEF tók saman í skýrslunni Staða barna á Íslandi: ný tölfræði um þróun ofbeldis gegn börnum á Íslandi (2019) sýnir að ríflega 16% barna svara því til að þau hafi orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Í 9.–10. bekk hafa 8% stúlkna og 4% drengja orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu einstaklings sem ekki er fullorðinn. Skýrslan byggir á gögnum frá Rannsóknum & greiningu og frá Stígamótum sem veita fullorðnum þolendum kynferðisofbeldis þjónustu. Samkvæmt lýðheilsuvísum frá 2019 hafa 15,5% framhaldsskólanema orðið fyrir kynferðisofbeldi en tölurnar koma frá fyrirlögn Rannsókna & greiningar frá árinu 2018. Samkvæmt tölfræði frá Stígamótum urðu langflestir skjólstæðingar þeirra fyrir ofbeldinu sem börn, eða fyrir 18 ára aldur.“

Svo er vitnað í fleiri rannsóknir og farið dýpra í þetta, en jafnframt undirstrikað, herra forseti, að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi þrífst í þögn. Það þrífst þegar við drögum ekki brotamennina til ábyrgðar, þeir viðurkenna ekki brot sitt heldur fá þessa þögn til að halda í raun áfram að kvelja fórnarlömb sín. Hér kemur fram að 40% ofbeldismanna tryggja þögn brotaþola, t.d. með hótunum, ofbeldi, mútum eða með því að kenna þolandanum um, að þolandinn taki ábyrgðina á glæpnum. Þessa þögn þarf að rjúfa og hana rjúfum við með aukinni fræðslu, þátttöku, ekki bara opinberra stofnana heldur áframhaldandi vitundarvakningu hvers og eins, allt frá börnum á leikskóla, að þau læri strax að virða mörk og við kennum þeim að virða mörk annarra og bera virðingu fyrir eigin mörkum.

Eins og ég sagði í byrjun þá þrífst ofbeldi í menningu okkar og án þess kannski að vita það þá höfum við viðurkennt það og þolað og samþykkt í allt of langan tíma og verið meðsek í að viðurkenna þessa þögn vegna þess að ofbeldi er óþægilegt og það er ljótt og það er best að gleyma því. En þannig lögum við ekki hlutina.

Mér finnst þessi áætlun sem við erum að fjalla um í dag, þessi mjög svo víðtæka áætlun með þátttöku opinberra aðila og félagasamtaka og ekki síst alls almennings, sem mun taka þátt í þessu með einum eða öðrum hætti, vera risastórt skref til að uppræta kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og alls kyns ofbeldi.

Í þessari umfjöllun bárust, að ég held, 23 umsagnir til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og við fengum gesti sem höfðu margt gott til málanna að leggja. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór ágætlega yfir helstu ábendingar sem sneru kannski helst að áhyggjum af kostnaðarmati og svo var líka töluvert talað um teymin í grunnskólunum sem bæru ábyrgð á fræðslu og verkefnum innan skólanna, að það væri kannski erfiðara á strjálbýlli svæðum og í minni skólum að vera með slík teymi. Niðurstaðan er þá kannski frekar sú að teymin yrðu dreifð á svæðum en hefðu samtal og samráð sín á milli til að gera hlutina sem allra best og fylgja þeim vel eftir. En þetta er akkúrat eitthvað sem verður kannski að koma að aftur þegar við förum að vinna að þessum verkefnum. Það er eitt að segja og annað að gera, en einhvers staðar verðum við að byrja og þetta er góð byrjun eins og ég hef margoft sagt hér í dag.

Í greinargerðinni er kafli um alþjóðlegar skuldbindingar og norrænt samstarf. Mér finnst mér hálfpartinn bera skylda til sem formaður í Íslandsdeild Norðurlandaráðs að fjalla aðeins um það sem snýr að norræna samstarfinu. Þar er stutt umfjöllun og, með leyfi forseta, langar mig að lesa það upp:

„Árið 2019 voru 45 ár liðin frá því að ákveðið var á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar að hefja formlegt samstarf á sviði jafnréttismála. Í samstarfinu hefur ekki síst verður lögð áhersla á vinnu gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Árið 2018 gaf NIKK, Norræna upplýsingasetrið um kyn og kynjafræði, út samantekt um aðgerðir stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi í framhaldi af samþykkt Istanbúl-samnings Evrópuráðsins undir yfirskriftinni The Istanbul Convention – The Nordic Way. Fjallað er um háa tíðni tilkynntra brota og alvarlegar samfélagslegar afleiðingar kynbundins ofbeldis í löndum sem jafnan raða sér efst á lista í alþjóðlegum samanburði á jafnrétti kynjanna. Norðurlöndin hafa á undanförnum árum öll fullgilt Istanbúl-samninginn og vinna löndin nú samkvæmt aðgerðaáætlunum að innleiðingu ákvæða samningsins. Í samantektinni er áréttað mikilvægi þess að áætlanir byggi á þeim skilningi að ofbeldi er gjarnan kynbundið og kynferðislegt og að slíkt ofbeldi beinist einkum að stúlkum og konum, sem og hópum sem hafa verið jaðarsettir. Þá er mælt með að unnið sé að kerfislegum umbótum þannig að fræðsla og forvarnir séu aldrei skipulagðar til skamms tíma heldur samþættar starfi heilbrigðis- og menntastofnana, svo sem með kennslu og fræðslu á öllum skólastigum.“

Í nefndaráliti hv. allsherjar- og menntamálanefndar er farið ágætlega yfir umsóknir og athugasemdir sem fram komu við umfjöllun og yfirferð málsins og framsögumaður hefur gert grein fyrir því. En það sem mig langar til að draga sérstaklega fram í dag er það sem ég endaði á áðan, þ.e. um jaðarsetta hópa. Þar vil ég helst nefna fatlaðar konur og fötluð börn. Það kom fram í umsögnum bæði Öryrkjabandalags Íslands og Þroskahjálpar að þessir hópar eru mun berskjaldaðri fyrir ofbeldi og þurfa að reiða sig frekar en aðrir á aðstoð annarra og jafnvel á aðstoð þess sem beitir ofbeldi. Og það er alveg skelfilegt. Því ber að hafa þetta í huga þegar við erum að móta þessi verkefni og fræðslu til barna og ungmenna og einnig til ungmenna sem eru með annað tungumál en íslensku þannig að allt efni nýtist þeim sem best og sé aðgengilegt. Það þarf ekki síst að vera mjög skýrt hvert þessi ungmenni geta leitað verði þau fyrir ofbeldi og þau átti sig á því að þögnin er það sem er hættulegast og á ekki að líðast. Þetta er hugarfarsbreyting sem við verðum einhvern veginn að ná í gegn hjá öllum hópum, háum sem lágum. Það kemur víða fram í greinargerð og í áliti nefndarinnar að mikilvægt er að fræða ekki bara börnin sjálf um þetta heldur alla þá sem koma að starfi með börnum og ungmennum, bæði í skólum, tómstundastarfi og öllu starfi, þannig að fólk sé meðvitaðra um birtingarmyndir ofbeldis og birtingarmyndir afleiðinga ofbeldis og þekki einnig þær leiðir sem hægt er að fara til þess að aðstoða einstaklinga í þessari stöðu.

Þekkingin á þessum málaflokki er víða og verkefnin í þessari áætlun, sem liggja fyrir framan okkur til umfjöllunar, miða að því að ná þeirri þekkingu svolítið saman og tengja saman aðila til þess að við getum skilað markmiðunum betur til samfélagsins. Í öllum umsögnum kom fram að fólk vildi leggja til sína þekkingu og umsagnirnar voru allar mjög góðar. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir nefndi varðandi fræðsluefnið að það er mjög mikið af efni til. Það þarf kannski bara að uppfæra það og aðlaga að mismunandi hópum. En allir sem fjölluðu um málið og komu til nefndarinnar voru boðnir og búnir til að aðstoða og leggja sitt af mörkum og það var mjög ánægjulegt að sjá það.

Ég er hér t.d. með umsögn frá Barnaverndarstofu sem fagnar þessari tillögu, að hér sé komin fram heildstæð stefna um forvarnir gegn kynferðislegu kynbundnu ofbeldi. Barnaverndarstofa vitnar í þá alþjóðlegu samninga og lög sem við höfum þegar undirgengist og tökum þátt í og telur tillöguna vera til mikilla bóta og fer ágætlega yfir það en bendir á að kostnaðarþátturinn kunni að vera vanáætlaður. Það er eitthvað sem mun koma í ljós og við þurfum að taka tillit til þegar þar að kemur.

Umboðsmaður barna var einnig með mjög góða umsögn og benti á mikilvægi þess að hafa börnin með í ráðum þar sem því verður við komið varðandi gerð verkefna og annars. Umboðsmaður bendir t.d. á að forvarnateymin í skólunum verði í samstarfi við nemendafélögin í viðkomandi skóla og finnst mér bara eðlileg og góð hugmynd að hafa ungmennin með í ráðum til að ná sem bestum árangri. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það, herra forseti, en í niðurlagi umsagnar umboðsmanns barna er mjög mikilvæg og góð umfjöllun um stöðu fatlaðra barna og unglinga þar sem (Forseti hringir.) fjallað er um þá vinnu sem umboðsmaður hefur tekið þátt í með þessum hópi og undirstrikar (Forseti hringir.) hversu berskjaldaður sá hópur er.