150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[15:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi.

Það er eitt meginhlutverk ríkisins að vinna gegn því að borgararnir verði fyrir ofbeldi. Og vegna þess að ríkinu getur aldrei tekist að tryggja að enginn beiti annan ofbeldi, hefur það einnig það mikilvæga hlutverk að rannsaka ofbeldisbrot og, í þeim tilvikum þar sem sekt er sönnuð, að sjá til þess að hinn seki hljóti refsingu í samræmi við lög.

Það er með öðrum orðum mjög mikilvægt að berjast gegn ofbeldi, og þá er kynferðisofbeldi að sjálfsögðu meðtalið. Í máli sem hér er til umræðu er athyglin á kynferðisofbeldi og svo á því sem kallað er kynbundið ofbeldi. Það síðarnefnda hefur verið skilgreint sem ofbeldi á grundvelli kyns, og vissulega má segja að berjast eigi gegn því eins og öllu öðru ofbeldi, en ég er ekki viss um að rétt sé að afmarka þær aðgerðir sem hér eru lagðar til eingöngu við kynferðisofbeldi og kynbundið ofbeldi. Nær væri að fjalla einfaldlega um ofbeldi og taka þá hugsanlega fram til áherslu, að sjónum skuli jafnframt sérstaklega beint að kynferðisofbeldi. Ofbeldi er einfaldlega vandamál sem berjast verður gegn, hvort sem gerendur og þolendur eru af sama kyni eða ekki.

Annað vil ég sérstaklega nefna. Samkvæmt tillögunni á að heyja baráttuna gegn ofbeldinu á öllum skólastigum og byrja í leikskólunum. Hér finnst mér rétt að staldra við. Auðvitað á að berjast gegn ofbeldi. En við megum ekki láta gæði málstaðarins, gæði baráttunnar, taka öll völd. Á að fara með þessa baráttu inn á leikskólana? Á að fara með hana í yngstu bekki grunnskólans? Auðvitað verður sagt að hér sé átt við fræðslu en ekki innrætingu, og að hún verði miðuð við þroska hvers og eins, og hún verði í höndum fagmenntaðs starfsfólks. Ég ætla ekki að þykjast vera sérfróður hér. En ég vil engu að síður segja að börn eiga að fá að vera börn. Fullorðnir, jafnvel þótt þeir hafi góðan málstað og virðingarverð baráttumál, verða að fara sér mjög hægt í að koma eigin áhyggjuefnum inn í huga barnanna.

Hvernig hefur þetta verið í umhverfismálum undanfarin ár? Þar hefur verið talið nauðsynlegt að fræða börn, allt frá leikskólaaldri, um umhverfismál. Þau eru látin flokka og endurnýta þar sem auðlindir séu að ganga til þurrðar og allt sé að fyllast af drasli. Mannkynið gangi svo illa um jörðina. Við leikskólann blaktir grænfáninn en sá íslenski er kannski sjaldséðari. Svo berast fréttir af því að börn geti vart mætt í skóla lengur af áhyggjum af umhverfinu. Víða hvetja kennarar krakkana til að skrópa í tíma til að standa með skilti fyrir framan sjónvarpsmyndavélar. Margir eiga víst erfitt með svefn vegna loftslagskvíða.

Herra forseti. Er víst að öll þessi fræðsla til barna um ógnir heimsins sé af hinu góða? Eiga fullorðnir að ryðjast með sínar áhyggjur inn í bernskuna? Hin áhyggjulausa tilvera stendur nógu stutt yfir. Þarf endilega að leggja ábyrgðina af þverrandi auðlindum og yfirfullum sorphaugum á herðar leikskólabarna? Þarf að gefa í skyn við leikskólabörn að þau séu líkleg til að verða fyrir ofbeldi og beita aðra ofbeldi? Þarf að segja grunnskólabörnum að þau sjálf eða skólafélagarnir séu líklegir kynferðisbrotamenn?

Herra forseti. Auðvitað þarf að fræða börn. En það á ekki að hræða börn. Og ef þannig er komið að kynslóð barna er illa haldin af loftslagskvíða, þá vona ég að næsta fræðsluátak leiði ekki til þess að við þann kvíða bætist nagandi ótti um að verða fyrir kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi.

Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir því að það sé tilviljun, að á sama tíma og sagt er frá því, að skólabörn séu mörg orðin nær frávita af hræðslu í umhverfismálum, verður ákafari krafan úr ýmsum áttum fyrir því að kosningaaldurinn verði lækkaður.

En þótt margir sjái ekkert að því að börn fái ítrekaða fræðslu um umhverfisvána sem vofi yfir þeim og um hlýnunina, sem skyndilega var farið að kalla hamfarahlýnun, þá eru þeir sömu oft mjög vakandi á verðinum yfir því mannréttindamáli, að skólabörn fái ekki gefins Nýja testamentið, sem er reyndar ákaflega góð og holl lesning fyrir fólk á öllum aldri. Og þar er einn boðskapur áberandi, og hljómar þannig með, leyfis forseta: „Verið ekki áhyggjufullir.“