150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[15:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir þessa nettu spurningu. Í ljósi þess að hv. þingmaður lagði ekki fyrir mig spurningu í þessu andsvari sínu vil ég bara taka undir það að auðvitað þarf að uppfræða börn. En allt í gögnum þessa máls finnst mér benda til þess að við séum að fara í svipaða vegferð og í loftslagsmálum, eins og ég lýsti í ræðu minni áðan, þar sem því er lýst ítrekað að börn niður í ótrúlega ungan aldur geti vart sofið út af loftslagsáhyggjum og þar fram eftir götunum. Ég velti því fyrir mér hvort það sé skynsamlegt að fara með svona fræðslu inn í skólana, t.d. til yngstu barnanna sem þarna um ræðir, því að það að fara með slíkt inn í grunnskóla þýðir í rauninni fræðslu alveg niður í sex ára aldur. En fljótlega upp úr þeim aldri teldi ég til að mynda skynsamlegt að taka miklu meiri upplýsta umræðu um eineltismál en þetta málefni. Ég verð bara að segja eins og er.

Ég vildi koma upp til að bregðast við þessum almennu sjónarmiðum þingmannsins. Mér finnst því miður margt benda til þess að við séum á einhvers lags hamfarahlýnunarumræðuvegferð þarna. En ég ætla ekki að draga úr því sem ég sagði í ræðu minni áðan: Við eigum að fræða börnin en ekki hræða.