150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[15:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú vill svo til að sá sem hér stendur hefur persónulega reynslu af því að vera fórnarlamb eineltis í barnæsku og veit ansi mikið um það og sömuleiðis hvernig umræðan í kringum það hefur breyst í gegnum tíðina. Hún hefur breyst vegna þess að talað er við börnin um hvað einelti er. Hún hefur breyst vegna þess að sagt er við börn: Já, með fullri virðingu, elsku barn, stundum tekur þú þátt í einelti. Þú meinar ekkert illt með því en þú gerir það.

Það er alveg eins með kynferðisofbeldi, fólk telur sig oft ekki vera að gera neitt á hlut annarra. Það er hluti vandans. Þess vegna þarf umræðan að eiga sér stað strax, í raun og veru um leið og fólk getur orðið fyrir kynferðisofbeldi. Þá þarf það að vita hvað það er. Auðvitað eigum við að reyna að hræða börnin sem minnst, en þetta fylgir ógninni, þau þurfa að vera meðvituð um og skilja hvaða mörk eru, annars munu þau ekki skilja það og eru mun líklegri til að verða fórnarlömb ofbeldis af þeim sökum einum að þau þekkja ekki ofbeldi frá því sem þeim er innrætt að sé eðlilegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)