150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja að ég var mjög hissa á þessari ræðu hv. þm. Bergþórs Ólasonar. Í fyrsta lagi notaði hann ríflega helminginn af tíma sínum í að tala um umhverfismál, sannarlega með einhverri vísun í að það sem verið væri að fræða börn um, varðandi loftslagsmál og afleiðingar af þeirri vá, væri fyrst og fremst hræðsluáróður, það mátti a.m.k. skilja það þannig. Um leið talaði hann um að berjast þyrfti gegn öllu ofbeldi. Ég spyr hv. þingmann: Er hann þá að segja að sú fræðsla sem á sér stað í skólum, hvort sem það hefur falið í sér að hvetja nemendur til að taka þátt í loftslagsmótmælum á Austurvelli eða eitthvað slíkt, sé einhvers konar ofbeldi?

Burt séð frá því vil ég kannski bara halda mig við þessa áætlun sem við erum að ræða. Hér talar hv. þingmaður um innrætingu, m.a. á leik- og grunnskólastigi, og grænfánaverkefnið og guð má vita hvað í öllu þessu samhengi. Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sem talaði á undan mér sagði, á á ofbeldi sér stað alls staðar í samfélaginu. Það þekkjum við.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvenær hann telur best að hefja forvarnir gagnvart börnum eða hvort það eigi yfir höfuð ekki að eiga sér stað fyrr en þau hafa náð einhverjum ákveðnum aldri. Ég myndi vilja fá að sjá inn í hugarheim hv. þingmanns hvað það varðar. Hvenær er það tímabært? Hér stendur:

„Mikilvægasta leiðin til að tryggja að fjallað sé um ofbeldi og áreitni með hætti sem hentar leikskólabörnum er að fyrir hendi sé vandað og aðgengilegt námsefni sem leikskólakennarar og annað starfsfólk geta notast við.“

Og síðar segir:

„Með vísan til ríkrar þekkingar Barnahúss á fræðslu fyrir börn er lagt til að Barnaverndarstofa haldi utan um þetta verkefni. Vakin er athygli á efni sem hefur verið þróað af leikskólakennara undir yfirskriftinni Fræðsla ekki hræðsla.“

Mér finnst þetta harmónera við það sem hv. þingmaður var að tala um, ekki hræðslu heldur fræðslu. Hér er lögð áhersla á það, m.a. á leikskólastigi.