150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[15:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Nú veit ég ekki hvernig það er í Framsóknarflokknum en hjá Miðflokknum höfum við öll frelsi til að tjá okkur um þau mál sem okkur hugnast að tjá okkur um. Ég geri engar athugasemdir við það að hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins í velferðarnefnd, sé á þessu áliti. Mér er frjálst að tjá hug minn eins og mér hugnast í þeim efnum. Það er svarið við spurningunni.

Ef hv. þingmaður kemur upp aftur, auðvitað er henni frjálst að taka þá umræðu eða ekki, þá er hér sagt að námsefni verði til samræmis við aldur og þroska þeirra sem kynningin fer fram fyrir. Telur hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir að tekist hafi vel að stilla alvarleika eða framsetningu þess efnis sem hefur verið til kynningar í leikskólum og grunnskólum um loftslagsmálin? Þau eru nú títt rædd í þessu samhengi. Lýsingarnar á hugarástandi barna á leikskólaaldri og grunnskólaaldri, þegar þau lýsa áhyggjum sínum af loftslagsmálum og því að geta ekki sofið og að heimurinn sé að farast, benda ekki til þess að mönnum hafi tekist vel til að stilla það upplýsingaflæði af með tilliti til aldurs og þroska.