150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[15:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu sem felur í sér aðgerðir til að efla forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Auk þess fylgir tillögunni aðgerðaáætlun, sem er mjög jákvætt að mínum dómi. Þær forvarnaaðgerðir sem boðaðar eru byggjast á markvissri kennslu á öllum skólastigum í samvinnu við heilsugæslu, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar. Við þekkjum máltækið: Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Þess vegna er öll fræðsla á þessu sviði ákaflega mikilvæg. Ábyrgðin er ekki bara skólakerfisins, hún er ekki síst foreldranna. Það þekkjum við öll.

Ég vil nefna það sérstaklega þar sem komið er inn á forvarnir í framhaldsskólum. Í umsögn Sambands íslenskra framhaldsskólanema um tillöguna kemur fram að framhaldsskólanemar telji kynferðislegt ofbeldi algengt og eigi sér stað innan veggja skólanna. Það eru að sjálfsögðu mjög alvarlegar fréttir og mikilvægt að taka það föstum tökum.

Ég hjó sérstaklega eftir því að rætt er um að fræðsluefni verði unnið í samstarfi við nemendur til að tryggja að fræðslan verði sem árangursríkust. Undir það vil ég taka heils hugar, það er mjög mikilvægt í þessum efnum að hafa nemendur með í ráðum í þeirri fræðslu og þeim forvörnum sem nauðsynlegt er að ráðast í. Þau þekkja best hvað virkar í þessum efnum.

Auk þess er rætt um forvarnir í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðru tómstundastarfi. Það er gríðarlega mikilvægt að mínum dómi og við þekkjum það í tengslum við #metoo-byltinguna að mjög slæmir hlutir hafa gerst innan íþróttahreyfingarinnar þegar kemur að áreitismálum, kynferðislegri áreitni og ofbeldi, og er það alveg ákaflega sorglegt. Auk þess er í nefndarálitinu lagt upp með að hafa virkt samráð við þá sem stunda æskulýðsstarf, íþróttastarf og tómstundastarf. Það er að sama skapi mjög gott að eiga þetta góða samstarf og efla alla fræðslu í þeim efnum.

En ég vildi aðeins koma inn á eitt, þó að það tengist þessu kannski ekki beint, en þó með óbeinum hætti, þ.e. kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Það er ekki síður mikilvægt að fara í átak til að fræða fólk á vinnustöðum um ofbeldi og forvarnastarf í þeim efnum. Það virðist vera einhvern veginn sett í hendur vinnuveitenda, yfirmanna í fyrirtækjum og annað slíkt, hvort það er gert eða ekki. Vinnueftirlitið sinnir þessum málum en það nær engan veginn að sinna því sem þarf hvað forvarnir varðar á vinnustöðum. En því miður er það svo, einkum eftir það sem í ljós kom í #metoo-byltingunni, að mörg dæmi eru um að vinnustaðir hafi leyft að kynferðisleg áreitni og ofbeldi grasseri hreinlega á ákveðnum vinnustöðum, ekki er tekið mark á frásögn þolendanna og gerendur hafa fengið að athafna sig jafnvel óáreittir.

En þrátt fyrir þau jákvæðu áhrif sem #metoo-byltingin hafði, þá er enn svo að ákveðin þöggunarmenning ríkir á þessu sviði. Það er bara staðreynd. Ég ætla að víkja aðeins nánar að því á eftir. En því miður er það svo að þeir ferlar sem eiga að taka á þessum málum eru oft gallaðir og koma niður á þolendum. Það er síðan vandamál að ekki nærri öll atvik eru tilkynnt. Ástæðan er oft sú að þeir sem hlut eiga að máli óttast oft um framtíð sína á vinnustaðnum eða í námi. Þess eru dæmi að konur sem tilkynna kynferðislega áreitni eða ofbeldi á vinnustað hafi verið neyddar til að hætta eða þeim hótað uppsögn. Það er að sjálfsögðu óásættanlegt.

Ég hjó t.d. eftir því þegar rætt var um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni í tillögunni, að samkvæmt tölfræði Evrópusambandsins verður eitt af hverjum fimm börnum fyrir kynferðislegu ofbeldi í einhverri mynd. Það eru að sjálfsögðu gríðarlega alvarlegar tölur. Það er tölfræði sem UNICEF tók saman, sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna og vinnur gott starf. En það má líka nefna það hér að kynferðislegt ofbeldi hefur grasserað í stofnunum Sameinuðu þjóðanna, svo ótrúlegt sem það má vera, og þar hafa margar konur sagt frá því að þær hafi hreinlega verið neyddar til þess að segja upp störfum eftir að hafa tilkynnt um kynferðislegt ofbeldi. Það er meira að segja búið að gera eina þekkta kvikmynd um kynferðislegt ofbeldi innan Sameinuðu þjóðanna, þannig að við sjáum hversu víða þetta kemur við og hversu alvarlegur vandinn er. En það er mikilvægt að starfsmaður sem orðið hefur fyrir einelti, áreiti eða ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi, á vinnustað eða hefur vitneskju um slíkt, upplýsi atvinnurekanda sinn og treysti því að því verði fylgt eftir.

Í reglugerð frá 2015 um aðgerðir gegn einelti og áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er lögð áhersla á að innan hvers vinnustaðar sé stuðlað að forvörnum og aðgerðum gegn slíkri háttsemi. Spurningin er hins vegar sú: Er því fylgt nægilega vel eftir? Það er nokkuð sem mér finnst að ætti að skoða. Og í tengslum við þetta mál, þar sem við ræðum um forvarnir í skólakerfinu, eigi að sjálfsögðu að útvíkka þetta enn frekar. Samkvæmt reglugerðinni skal atvinnurekandi gera starfsfólki það ljóst að einelti, áreitni og ofbeldi er óheimilt á vinnustað og að honum beri skylda til að koma í veg fyrir að slíkt viðgangist á vinnustaðnum.

Ég vil velta því upp hvort það sé ekki alveg jafn nauðsynlegt að stjórnvöld beiti sér fyrir því að efla fræðslu og forvarnir á vinnustöðum.

Ég nefndi Vinnueftirlitið fyrr í ræðu minni. Sú ágæta stofnun á að stuðla að og efla forvarnir, t.d. með leiðbeiningum og fræðslu, og sjá til þess að atvinnurekandi grípi til viðeigandi úrbóta í vinnuumhverfinu þegar við á. Vinnueftirlitið er hins vegar ekki úrskurðaraðili um hvort einelti, áreitni eða ofbeldi hefur átt sér stað. Ég tel að við þurfum að efla þessa stofnun til muna svo hún geti fyllilega sinnt forvörnum á vinnustöðum, sem er svo sannarlega nauðsynlegt.

Herra forseti. Nokkur tími er liðinn frá upphafi #metoo-byltingarinnar og eru afleiðingarnar enn að koma fram. Ráðist hefur verið í aðgerðir hér á landi. Til að mynda efndu allir flokkar á Alþingi til #metoo-ráðstefnu þar sem yfirskriftin var #metoo og stjórnmálin. Hún var alveg ágætlega heppnuð. Það má því segja að mikil vitundarvakning hafi orðið í þjóðfélaginu í kjölfar #metoo-byltingarinnar. Það er mikilvægt að vinna gegn þessum rótgrónu hugmyndum með aukinni fræðslu og áframhaldandi umræðu. Það virðist vera að skila einhverjum árangri ef marka má umræðuna í samfélaginu. Samfélagið virðist ekki hafa verið tilbúið að opna augun og viðurkenna vandann fyrr. Það er sorgleg staðreynd. En með tilkomu #metoo varð til vettvangur fyrir sögur af þessum toga og konur geta sagt frá upplifunum sínum úr starfi á sínum eigin forsendum. Hlustað er á þær og tekið mark á þeim, vonandi, ég held að við getum fullyrt það. En hvort það er nægilegt höfum við hins vegar ekki nægar upplýsingar um.

Til að viðhalda þessu er mikilvægt að halda umræðunni á lofti og endurskoða verkferla reglulega. Með aukinni vitundarvakningu og umræðu meðal almennings hafa stórir áfangar náðst, sérstaklega með tilkomu samfélagsmiðlanna.

Ég vil staldra aðeins við áhugaverðar innihaldsgreiningar á hluta af frásögnum #metoo-kvenna sem gerð var af nokkrum nemendum í sálfræði við Háskólann á Akureyri á síðasta ári. Þær benda til þess að kynferðisleg áreitni þrífist innan allra starfsstétta sem skoðaðar voru, þá helst í orðbundnu formi. Ég vil sérstaklega nefna kvikmyndagerð og sviðslistir vegna þess að þessar greinar komu sérstaklega illa út. Þegar sögur kvenna í þessum geira eru skoðaðar, og í þessu námi líka, kom í ljós að konur í þeirri starfsstétt og í þessu námi, sviðslistagreinum og kvikmyndagerðarnámi, verða í miklum mæli fyrir áreitni af hálfu yfirmanna sinna eða samstarfsmanna eða kennara. Áreitni yfirmanna var áberandi innan skólakerfisins þar sem kennarar misnota vald sitt gagnvart nemendum, eins og í kvikmyndagerð og sviðslistum. Einnig eiga leikstjórar það til að virða ekki mörk leikara sinna til að ná sínu fram. Áreitni samstarfsmanna á sér stað á vinnumarkaði, þ.e. í leikhúsum landsins og við tökur á kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum.

Við setjum mikla fjármuni og aukið fé í kvikmyndagerð, sem er okkur mikilvægt efnahagslega séð. Ætti ekki að krefjast þess að farið verði í markvissar forvarnir, forvarnaaðgerðir og átak í því að vinna niður þessa meinsemd, sem virðist vera sérstaklega áberandi í þessum geira? Að krafa verði um að auknum fjárveitingum í þennan geira fylgi einhvers konar átak um að taka á þessum málum, því að stjórnvöld geta ekki horft upp á að það skuli vera svona áberandi mikil kynferðisleg áreitni gagnvart nemendum í þessari grein. Ef rýnt er nánar í kynferðislega áreitni innan leiklistarnáms má sjá að þó nokkuð var um frásagnir sem fjölluðu um áreitni innan leiklistarskólanna. Kvikmyndaskólinn og Listaháskóli Íslands komu við sögu í 11 af 62 frásögnum sem skoðaðar voru eftir #metoo-byltinguna. Þar kom fram að mörk kvenkyns nemenda væru ekki virt og að viðhorf væru á margan hátt brengluð þegar kæmi að kynlífi og ofbeldi.

Þetta eru ótrúlegar frásagnir úr kvikmyndagerðarnámi og leiklistarnámi. Kennarar virðast sumir hverjir vera með brenglaður hugmyndir er varða kyn og kynhlutverk og misnota vald sitt á kynferðislegan máta sem misbýður nemendum. Hér er t.d. ein frásögn, sem rýnt var í af sálfræðinemum við Háskólann á Akureyri, þar sem segir að þar sem kennarar séu valdameiri en nemendur misnoti þeir vald sitt, eða eins og segir í frásögn af kennara og áreitni hans við nemendur: Enginn treystir sér til að segja neitt vegna þess að fólk hefur áhyggjur af því að það gæti hugsanlega skemmt fyrir því leiklistarferilinn, því að bransinn er svo lítill.

Þessar frásagnir eru náttúrlega ákaflega dapurlegar og bera vott um að karlar hafa vald yfir konum og kúga þær og misnota aðstöðu sína þegar þeir eru í þeirri valdastöðu sem kennarastaðan er í þessum greinum. Þá finnst konum auðveldara að þegja og tjá sig ekki um áreitnina frekar en að segja frá.

Herra forseti. Mér fannst nauðsynlegt að koma inn á þetta hér vegna þess að rætt er um forvarnir á öllum skólastigum. Það er nauðsynlegt að taka sérstaklega á þessum vanda hvað þessar sérstöku greinar varðar. Jafnframt kemur fram að konum er tilkynnt að ef þær ætli að lifa af í þessum heimi, sem er leiklistargeirinn og kvikmyndageirinn, þurfi þær að læra að verða samdauna þeirri menningu sem þrífst innan leiklistarheimsins. Það er náttúrlega alveg ótrúlegt að heyra þetta. Stjórnvöld eiga að gera þá kröfu að tekið verði á þessu föstum tökum. Það er algjörlega ólíðandi að svona skuli viðgangast innan stofnunar, fræðslustofnunar og menntamálageirans, eins og kvikmyndageiranum og leiklistargeiranum.

Það er í mínum huga, og það er líka mitt innlegg í þessa umræðu, að það er ekki bara nauðsynlegt að fræða börn og nemendur. Af þeim frásögnum sem ég nefndi hér sjáum við að gerendurnir eru fullorðið fólk í áhrifastöðum. Það er svo fullkomlega nauðsynlegt að fræða fólk um að svona háttsemi á ekki að viðgangast og er ólíðandi. Ég hefði viljað sjá að þessi ágæta tillaga yrði víkkuð enn frekar út og að við færum í sérstakt átak á vinnustöðum og einnig gagnvart þeim sem eru í skólakerfinu. Þá á ég við kennarana, sem þurfa greinilega fræðslu eins og allir þurfa í þessu.

Herra forseti. Að endingu vil ég segja að ég fagna þessari þingsályktunartillögu. Hún er mikilvægt skref í rétta átt og vonandi tekst okkur vel til í þeim efnum.