150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[15:52]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Birgi Þórarinssyni um það sem hann vék að í ræðu sinni. Það er alveg rétt, kynferðismisnotkun og kynferðisleg áreitni af alls kyns tagi snýst ævinlega um misnotkun á valdi. Þetta er ævinlega valdbeiting og reyndar er ævinlega um að ræða aðila sem er í einhverri valdastöðu gagnvart þeim sem misnotkunin beinist gegn. Ég ætla ekki að teygja lopann neitt heldur kem ég hingað upp til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál, þó með þeim fyrirvara að ég tel að fjármögnunin sé óviss og að betur hefði mátt ganga frá því. Ég tel að fjárþörfin í þessu sé vanmetin. Ég held að mjög mikilvægt sé að vel og faglega sé staðið að fræðslu og slíkt kostar ævinlega eitthvað.

Ég lít ekki síst á þetta sem mikið hagsmunamál fyrir karlmenn vegna þess að ég held að það vanti, sérstaklega fyrir unga karlmenn, góðar fyrirmyndir, góða, holla sjálfsmynd, heilbrigða sjálfsmynd og gott fræðsluefni sem kennir þeim að bera virðingu fyrir sjálfum sér og að bera virðingu fyrir öðrum. Ég held að á ungum karlmönnum, sérstaklega, og kannski mönnum á öllum aldri, dynji fræðsluefni sem kennir þeim eitthvað þveröfugt, kennir þeim ofbeldishegðun, kennir þeim misnotkun, kennir þeim valdbeitingu. Ég held að þarna þurfi að vera einhvers konar mótvægi.

Þetta mál snýr annars vegar að börnum sem verða fyrir ofbeldi og hins vegar að börnum sem beita ofbeldi. Báðir þessir hópar þurfa á fræðslu að halda. En þar með er ekki sagt að það sé sams konar fræðsla sem þessi hópar þurfa á að halda. Nokkurs misskilnings gætti í þessum ræðustól áðan, að um væri að ræða einhver konar innrætingu þegar börn eru frædd um ofbeldi, að þeim sé innrætt eitthvað um ofbeldi. En staðreyndin er sú að það er alltaf viss hluti barna sem verður fyrir ofbeldi, annaðhvort í sínu nánasta umhverfi eða annars staðar á sinni vegferð. Það er mjög mikilvægt að börn sem upplifa slíkt fái að vita að það er ekki eðlilegt. Ofbeldi er ekki eðlilegt. Það er ekki þeim að kenna. Ofbeldi er ekki beitt vegna þess að börnin hafi hvatt til þess á einhvern hátt. Þau hafa mörk og þau eiga sinn líkama. Það er mjög mikilvægt að þau hafi einhvern til að tala við um ofbeldið og mjög mikilvægt að talað sé um það, að um það ríki ekki þögn vegna þess að í þögninni blómstrar ofbeldið.

Ég er ekki sammála talsmönnum þagnarsamfélagsins, sem við verðum stundum vör við, þ.e. þeim sem halda því fram að best sé að þegja bara um hluti sem er kannski óþægilegt að horfast í augu við og óþægilegra og erfiðara að tala um, hvort sem um er að ræða ofbeldismál eða þá loftslagsvána.

Við erum annars vegar með hóp barna sem verður fyrir ofbeldi og þarf á fræðslu að halda um ofbeldi. Svo erum við hins vegar að tala um börn sem beita ofbeldi. Stundum fer þetta meira að segja saman. Það eru börn sem þurfa sárlega á nærgætinni fræðslu og handleiðslu að halda. Það er vissulega mjög vandmeðfarið og þegar kemur að því er mjög mikilvægt að þar sé fagfólk sem standi að því. Ofbeldið þrífst í þögn og því meira sem við tölum um ofbeldið, ofbeldishegðun, því meira sem við leiðum það fram í dagsljósið, þeim mun erfiðara á ofbeldishegðun uppdráttar.

Ég tel að þetta mál sé til þess fallið að þoka okkur áfram í baráttunni við ofbeldið.