150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er nú eiginlega jafn hissa, jafn lens og hv. þingmaður. Ég skil ekki af hverju meiri hlutinn tekur ekki undir með minni hlutanum um að fella aðstoðarmenn ráðherra undir snúningshurðarákvæðið, vegna þess að ég hef verið í þeirri stöðu. Ég veit hvað aðstoðarmönnum leyfist í hlutverki sínu. Þeir eru hreinlega framlenging á ráðherranum. Og ef við erum að semja reglur um það sem ráðherrum leyfist eftir að þeir láta af embætti held ég að þær ættu oftar en ekki að gilda nánast sjálfkrafa um aðstoðarmenn ráðherra.

Hvað veldur? Jú, ég held að það sé alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir. Það að hafa verið aðstoðarmaður er gott á ferilskrána, en það er líka mjög góð reynsla. Það er þess vegna sem aðstoðarmenn rata oft í hagsmunavörslu, rata oft í þingmennsku. Við erum átta fyrrverandi aðstoðarmenn sem sitjum á þingi í dag vegna þess að við erum komin með ákveðin verkfæri hvað varðar vinnu innan stjórnsýslunnar. Við þekkjum kerfið ágætlega. Í hlutverkaleiknum í upphafi andsvarsins spurði hv. þingmaður, í anda hv. flutningsmanns meiri hluta, hvort ég væri sár. Ég er það alls ekki. En ég hefði búist við svo miklu meira af flutningsmönnum þessa máls vegna þess að tannlaust snúningshurðarákvæði er verra en ekkert.