150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég er að vísa í er reglugerð frá 15. apríl 2016 sem sett var af forsætisráðherra og byggir á lögum um Stjórnarráðið og snýr að reglum um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands. Ég er að vísa í þetta vegna þess að það virðist vera viðtekin venja að starfsmenn ráðherra skrái ekki símtöl ráðherra þrátt fyrir að reglurnar geri skýrlega grein fyrir því að þeim beri skylda til þess, ef þessi samskipti fela t.d. í sér símtöl, með leyfi forseta: „… þar sem lýst er afstöðu eða veittar upplýsingar sem teljast hafa þýðingu fyrir mál sem er til meðferðar í ráðuneyti eða teljast mikilvægar …“ Það eru sem sagt ákveðin skilyrði fyrir þessu.

Það kom fram í svörum frá ráðuneytinu að símtölin voru ekki skráð sérstaklega í umræddu máli. Ég hef fengið sömu svör frá sjávarútvegsráðuneytinu, um að þetta sé ekki gert. En telur hv. þingmaður virkilega ekkert tilefni til þess að skrá samskipti ráðherra um (Forseti hringir.) mikilvæg málefni sem ekki koma fram í málsgögnum annars staðar? Ætti bara að henda þessari reglu af því að enginn er að fara eftir henni?