150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:58]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skemmtilega ræðu þar sem víða var komið við, m.a. vék þingmaðurinn að reglum. Ég er pínulítið á svipuðum slóðum og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þ.e. að alltaf er verið að brjóta reglur, það er alveg rétt. Ályktunin sem hv. þingmaður dró af því var sú að kannski væru reglurnar í einhverjum tilvikum vitlausar frekar en fólkið sem brýtur þessar reglur. Hvað með umferðarreglur? Daglega er verið að brjóta umferðarreglur, menn reyna að fara yfir á rauðu ljósi, menn sleppa því að gefa stefnuljós og menn gera bara ýmsan óskunda í umferðinni og skapa hættu vegna þess að þeir fara ekki eftir reglum. Er mælikvarðinn á gildi reglunnar sá hvort reynt sé að brjóta hana? Eða hefur reglan gildi í sjálfu sér fyrir samfélagið, fyrir öryggi annarra vegfarenda og fyrir öryggi samfélagsins í heild? Getum við kannski heimfært þetta dæmi og þessa líkingu um umferðarreglurnar upp á svona reglur sem reyna að passa upp á að jafnrétti kynjanna sé haft í heiðri?