150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[19:26]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því miður sjáum við ekki úti í atvinnulífinu nógu mikið af fyrrverandi ráðuneytisstjórum, skrifstofustjórum eða fyrrverandi sendiherrum, og það er ástæða fyrir því. Það er af því að menn eru komnir í mjúkan faðm ríkisins með æviráðningu. Það er nú bara vandinn og aðallega fyrir þá sjálfa, ungt fólk ílengist jafnvel í þeim embættum von úr viti. Ég nefndi börn í fyrra andsvari mínu. Það er eins og þau séu orðin sérstakt vandamál, börn stjórnmálamanna, börn ráðherra. Trúir hv. þingmaður því virkilega að frumvarp sem kveður á um upplýsingagjöf um fjárhagsleg málefni barna auki á gagnsæi og trúverðugleika í stjórnsýslunni? Trúir hv. þingmaður því? Eða sendiherra? Hvaða völd hafa sendiherrar? Við hverju er verið að stemma stigu með því að setja reglur um að sendiherrar megi ekki hverfa til hinna og þessara starfa eða að makar þeirra þurfi að upplýsa um aldur og fyrri störf?

Trúir hv. þingmaður því? Ég spyr hann bara heiðarlega. Hv. þingmaður er sagnamaður og rakti ágætlega hvernig menn hafa horft á þessi störf og ég spyr hvort hann geti gefið mér heiðarlegt svar eða hvað hann hafi á tilfinningunni. Ég lýsti því í ræðu minni hér fyrr að ég hef svolítið á tilfinningunni að frumvarpið sé samið af einhverjum sem hefur þessa landlægu glýju í augum hvað varðar tiltekin störf hér í þjóðfélaginu sem eru sendiherrastöður, stöður aðstoðarmanna ráðherra. Mér finnst einhvern veginn vanta flugfreyjur og flugmenn inn í frumvarpið líka. Þá er hægt að ná öllum þeim starfsstéttum sem menn vilja alltaf vera að skrattast í, ef ég leyfi mér að segja það, virðulegur forseti.

Hvað finnst hv. þingmanni um það?