150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[15:39]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um mjög mikilvæga tillögu sem ég styð, tillögu til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025. Ég held að áætlunin og þær aðgerðir sem þarna eru inni séu mjög mikilvæg tæki til þess að halda áfram að breyta menningu á þessu sviði.

Mig langar að nefna eitt sem ég nefndi við fyrri umr. og ég sakna svolítið að sjá ekki í nefndarálitinu, það varðar forvarnir í framhaldsskólum. Þá hefði ég sérstaklega viljað sjá nefndar forvarnir sem snúa að þeim sem búa á heimavistum og vil ég halda því til haga hér við atkvæðagreiðsluna. En ég veit að tekið verður tillit til þess við vinnuna í námsefnisgerðinni.

Þá vil ég koma inn á orð sem notað er í ályktuninni; talað er um kynferðislega friðhelgi, sem ég held að sé mjög mikilvægt orð sem við eigum eftir að læra að nota og vinna eftir.