150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka aðeins undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Mér er ekki vel við að seinka samkomudegi Alþingis um þessar nokkru vikur sem lagt er til og hef í því samhengi verið að velta fyrir mér hvers vegna talað sé um þessar þrjár vikur og hvers vegna þessi tímasetning fyrir fjárlögin skipti svona miklu máli. Nú erum við komin út úr fjármálastefnunni, fjármálaáætlunin er svolítið tæp og fjárlögum verður þá seinkað um þrjár vikur.

Ég vil til að byrja með spyrja hæstv. ráðherra: Er eitthvað sem gerist sérstaklega í september sem skiptir máli fyrir samningu fjárlagafrumvarpsins? Eru einhverjar forsendur sem þá koma fram? Eru einhverjir hlutir sem gerast í september sem hafa eitthvað með flutning á þessum degi að gera?