150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki bara þingið sem þetta hefur áhrif á því að í frumvarpinu eru lögð til ansi viðamikil útgjöld ríkisins sem hafa áhrif á ansi marga. Í lögum um opinber fjármál er gert ráð fyrir því að klára fjárlög í lok nóvember, þannig að þegar er búið að stytta fjárlagavinnuna aftan frá og nú er líka verið að stytta hana að framan. Þá er orðinn ansi lítill tími til afgreiðslu fjármálaáætlunar og fjárlaga. Hagstofan hefur áður gefið út sumarhagspá, það var nú bara í fyrra þegar drifin var saman hagspá til að mæta þeirri lægð sem þá kom. Mig langar til að leita álits hæstv. forsætisráðherra þar sem segir í lögum um opinber fjármál að fjármálastefnan sé stefna ríkisstjórnar sem lögð er fram á Alþingi um markmið í opinberum fjármálum til eigi skemmri tíma en fimm ára. Núna á sem sagt ekki að leggja fram stefnu í opinberum fjármálum. Það á einfaldlega að halda óvissu þangað til í haust hvað það varðar.