150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

fjöleignarhús.

468. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Málið fór til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Það var fyrst og fremst vegna ábendingar hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur en það þurfti líka að gera örlitlar breytingar á frumvarpinu. Þær eru nú flestar mjög tæknilegar og voru ábendingar frá nefndasviði og ætla ég ekki að lesa þær upp. Ég vil þó lesa hér upp örlitla breytingu sem við í nefndinni bættum við í b-lið 1. liðar breytingartillögunnar, sem er:

„Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Að því marki sem um er að ræða sameign skv. 43. gr. er tengdur kostnaður vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla, svo sem vegna sameiginlegra raflagna, sameiginlegur kostnaður eigenda, allra eða sumra, sbr. 7. og 44. gr., enda þótt hleðslubúnaður sé við eða á bílastæði sem er séreign eða fylgir séreign.“

Þetta ákvæði kemur inn í frumvarpið og síðan eru breytingar, virðulegur forseti, sem eru hér með lagðar fram á þskj. 1636 og eru eins og þær standa þar.

Ég vil líka að það komi hér fram úr ræðustól að á milli 2. og 3. umr. fékk nefndin á fund sinn fulltrúa frá Reykjavíkurborg til að fjalla um styrkveitingar borgarinnar vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla við fjöleignarhús. Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur leggja árlega 20 milljónir hvor í þrjú ár til að úthluta styrkjum til húsfélaga íbúðarhúsa sem koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Framangreint fyrirkomulag hefur gengið vel og með skýrari lagaumgjörð er líklegt að eftirspurn eftir styrkjum til uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla muni aukast. Því er fullt tilefni til þess að skoða hvernig ríkið getur veitt slíkri uppbyggingu enn frekari stuðning, t.d. með sambærilegum styrkveitingum sem myndu gagnast öllum sveitarfélögum landsins.

Þá er einnig rétt að árétta það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar milli 1. og 2. umr. um þá sem nú þegar hafa sett upp eigin hleðslustöð og staðið undir kostnaði á því. Húsfélagi verður í þeim tilvikum heimilt að krefjast þóknunar fyrir notkun stæða sem greidd hafa verið sameiginlega af húsfélagi en ekki þeirra sem rafbílaeigendur hafa nú þegar sett upp. Ef um bílastæði í séreign er að ræða telst kostnaður vegna búnaðarins sérkostnaður og búnaðurinn sjálfur séreign. Viðkomandi þarf hins vegar að taka þátt í sameiginlegum kostnaði vegna raflagna og jarðvinnu ef slíkt er nauðsynlegt. Nefndin vill koma þessu hér sérstaklega á framfæri.

Ég vil líka bæta því við, virðulegur forseti, að samkvæmt minni vitneskju og mínu minni var um síðustu áramót felldur niður virðisaukaskattur af rafbúnaði sem skiptir auðvitað verulegu máli þegar verið er að fara í slíkar framkvæmdir og í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar núna í Covid-ástandinu var felldur niður virðisaukaskattur af vinnu við eigin húsnæði vegna endurbóta og lagfæringa. Það kemur líka til góða og við í nefndinni lítum auðvitað á það sem gott innlegg í þessa umræðu. Þetta nýtist þeim sem ætla sér að fara í þessa uppbyggingu, sem er mikilvæg.

Virðulegur forseti. Þessi aðgerð hefur nú þegar liðkað fyrir rafbílavæðingu í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna um orkuskipti í vegasamgöngum. Að þessu sögðu vona ég að hér sé gott mál á ferðinni sem ég mun greiða atkvæði með.