150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Því miður er það svo að okkur hefur ekki tekist á síðustu áratugum að fara í almennilega uppbyggingu á samgöngumannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu. Af nýframkvæmdum samgöngumannvirkja hafa eingöngu 16% runnið til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu þar sem 70% íbúa búa. Vonandi sjáum við fram á breytta tíma í þessum efnum.

Í september sl. var skrifað undir tímamótasamkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var samkomulag sem var gert milli samgönguráðherra og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið með samkomulaginu var að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumála. Leita skal leiða við að dreifa umferðarálagi með markvissum hætti og bæta þannig nýtingu innviða. Jafnframt á að stuðla að því að loftslagsmarkmiði stjórnvalda um sjálfbært kolefnishlutlaust borgarsamfélag verði náð með eflingu almenningssamgangna, deilihagkerfis í samgöngum og bættum innviðum fyrir aðra vistvæna samgöngumáta og auk þess að hvetja til breyttra ferðavenja og orkuskipta.

Mikilvægt er jafnframt, og það er hluti af markmiðunum, að auka umferðaröryggi með það að markmiði að draga stórlega úr umferðarslysum. Lykilatriði er auðvitað að bæta umferðarflæði hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er líka mikilvægt að íbúar hafi raunverulegt valfrelsi um samgönguleiðir. Þess vegna verðum við, samhliða því að það þarf að sjálfsögðu að ráðast í betrumbætur á stofnvegum, að tryggja öruggar og góðar leiðir fyrir gangandi og hjólandi. Síðast en ekki síst þurfum við öflugar almenningssamgöngur sem í þessu verkefni gengur undir nafninu borgarlína. Borgarlína er ekkert lykilsvar við öllum vandamálum sem við glímum við í samgöngumálum en það er og verður alltaf að vera hluti af lausninni. Þess vegna er fagnaðarefni að við munum fljótlega afgreiða hér samgönguáætlun og áætlun um félag sem (Forseti hringir.) mun standa undir þeim framkvæmdum sem skrifað er undir í þessum höfuðborgarsáttmála.