150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar taldi óþarft að ljúka frumkvæðisathugun á hæfi sjávarútvegsráðherra vegna Samherjamálsins. Að stoppa athugun kemur eitt og sér ekki á óvart þegar þessir þrír stjórnarflokkar eiga í hlut. Það sem er hins vegar alvarlegt er hvernig meiri hlutinn ráðskast með hlutverk sitt með þeim hætti að þau telja það duga að henda inn einni bókun til að stoppa mál og koma í veg fyrir frekari umfjöllun. Með svona afgreiðslu, sem á endanum mun koma til kasta forseta þingsins, býður meiri hlutinn upp á feluleik og gerir málið sjálft að stórmáli því að það er ekkert smámál að draga tennurnar úr eftirlitshlutverki Alþingis og þangað beini ég sjónum mínum. Í því felst mikil pólitísk ábyrgð. Það er ólýðræðislegt og óboðlegt.

Við erum margbúin að upplifa það af hálfu stjórnarflokkanna að ef þeir sitja ekki sjálfir á skýrslum þá eru þeir hreinlega á móti skýrslubeiðnum sem við höfum lagt fram hér á þinginu, eins og að bera saman greiðslur Samherja fyrir veiðiheimildir í Namibíu og greiðslur á Íslandi. Þar var eftir því tekið hversu eindregið Sjálfstæðisflokkurinn var á móti. Þar fyrir utan er gert lítið úr fyrirspurnum þingmanna. Menn eru lengur að svara en nokkur dæmi finnast um í þingsögunni. Og nú á að gera allt til þess að kippa eftirlitshlutverki Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu úr sambandi.

Hvernig verður það, herra forseti, þegar framvegis verða gerðar frumkvæðisathuganir, á þá meiri hluti með þessum hætti að geta komið í veg fyrir afgreiðslu mála og hindra þannig að mál fái fullnægjandi meðferð? Á þetta í alvörunni að verða fordæmi hér á hinu háa Alþingi, algerlega óháð því máli sem hér var undir? Auðvitað vitum við að þetta er mjög viðkvæmt mál fyrir ríkisstjórnina, Samherjamálið, fiskveiðistjórnarkerfið og sérhagsmunirnir sem þarna liggja undir. En burt séð frá því eru þessi vinnubrögð óboðleg og sannarlega ekki hluti af margboðaðri eflingu Alþingis. Og þetta er í boði Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeirra arfleifð verður sú að þau standa í vegi fyrir öllum þeim skrefum sem minni hlutinn hefur reynt að stíga (Forseti hringir.) til að sinna eftirlitshlutverki sínu, sérstaklega þegar málin hafa verið viðkvæm, pólitískt viðkvæm, og við höfum, því miður, herra forseti, séð þetta áður.