150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ýmis konar stórmál ganga yfir okkur þessa dagana og ég hef smááhyggjur af því að það sem er kannski stærsta málið sem hefur frést af í dag kom ekki alveg strax í fréttirnar. Eitt af því, sem er risastór frétt, er yfirlýsing sem kemur frá Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR. Hann segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi yfirlýsinga stjórnvalda vegna kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga um að öll vinna sé samkvæmt því leiðarljósi sem var markað með lífskjarasamningnum […]. Stjórn VR styður í einu og öllu kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga og allra stétta og gerir ekki kröfu um að aðrir fái það sama eða minna en við fengum heldur fögnum við því ef aðrir ná betri árangri sem við getum svo haft að leiðarljósi í næstu samningum.“

Það er nefnilega dálítið áhugavert að takmark stjórnvalda sé einmitt lífskjarasamningurinn gagnvart stéttum sem fengu ekki að semja þar um. Það segir enn fremur í yfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Því skal svo haldið til haga að það eina sem raunverulega ógnar lífskjarasamningnum eru stjórnvöld sjálf. Það stendur ekki steinn yfir steini þegar kemur að efndum loforða og hefur mest allur tími og vinna verkalýðshreyfingarinnar farið í það að endursemja og krefja sömu stjórnvöld um sömu hluti og samið var um og skrifað var undir.“

Svo segir síðar: „Og fátt sem getur komið í veg fyrir að samningum verði sagt upp í haust.“

Þetta er ekki lítil frétt. Þetta er stór frétt. Það er stórkostlega alvarlegt mál ef ekki er verið að sinna því sem skrifað var undir í lífskjarasamningunum gagnvart ýmsum atriðum sem stjórnvöld lofuðu aðkomu að og að samningum, sem ekki er staðið við, sé haldið að öðrum starfsstéttum og þær eigi að fara eftir þeim viðmiðum. (Forseti hringir.) Stjórnvöld geta ekki lengur falið sig á bak við plögg sem þau hafa sjálf gert marklaus.