150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[14:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Auknar skorður við hagsmunaárekstrum æðstu valdhafa eru mikilvægar. Hér er t.d. komið böndum á samskipti stjórnsýslunnar við lobbíista, svokallaða hagsmunaverði, úti í bæ sem skiptir miklu máli til að ákvörðunartaka innan stjórnsýslunnar sé skýr og gagnsæ. Hvað varðar allt sem snýr inn á við eru málin hins vegar öllu lausari í reipum. Það sem snýr að stjórnmálamönnunum sjálfum og nánasta samverkafólki þeirra er mun lausreifaðra. Það er ekki sjálfstætt eftirlit með þeim hópum og hagsmunaskráningu þeirra og ekki verða settar skorður á möguleika aðstoðarmanna til að ganga beint úr því starfi í starf hagsmunavarðar þrátt fyrir að það sé sá hópur sem lögin fjalla um sem líklegast er að velji sér þann frama að loknum störfum fyrir hið opinbera. Einn af hverjum átta aðstoðarmönnum til þessa hefur valið sér þann framgang sem næsta skref eftir aðstoðarmansstarfið.