150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[14:28]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Það er mikið framfaraskref sem við stígum hér með samþykkt þessa frumvarps, eins og kom fram í nánast öllum umsögnum sem skilað var til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í orðum gesta og umfjöllun nefndarinnar almennt. Mér hefur þótt athyglisvert að fylgjast með fulltrúum minni hlutans tala sig upp í það í þessu máli að hér sé eitthvað brogað, þetta sé ekki alveg nógu gott, og setja þetta í samband við ég veit ekki hvað vegna þess að ekki náðu allar tillögur hv. fulltrúa minni hlutans inn í endanlegt frumvarp eins og eðlilegt er. Reglulega hefur tilvitnun í Megas félaga minn komið upp í kollinn á mér: fiskisagan flýgur úr sjónmáli /er flugufóturinn vex að rúmmáli. Við erum hér að stíga gríðarlegt framfaraskref sem allir eru sammála um. Ég held, hæstv. forseti, að við eigum að horfa til þess, en ekki til þess hvort við fengum öll að hafa allt eins og við vildum hafa það.