150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[14:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða mikilvægt þingmál sem fjallar um gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni. Málið á sér þó nokkurn aðdraganda en um þessi mál var fjallað á heilbrigðisþingi í haust sem leið. Um er að ræða leiðarljós við veitingu heilbrigðisþjónustu og ákvarðanir á því sviði. Gildin í tillögunni eru mannhelgi, þörf og samstaða og loks hagkvæmni og skilvirkni í mikilvægisröð.

Ég vil við þessa atkvæðagreiðslu þakka fyrir þá breiðu samstöðu sem fram kemur í nefndaráliti við málið og þakka velferðarnefnd fyrir vinnuna. Með atkvæðagreiðslunni tryggjum við að gildi og forgangsröðun verði fyrir hendi fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi og þessi ályktun Alþingis verði lögð til grundvallar óháð kosningum eða breytingum á pólitísku landslagi. Það er mikið gæfuspor sem íslenskt heilbrigðiskerfi á skilið.