150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[14:37]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég styð að sjálfsögðu efni þessarar tillögu og fagna góðri umræðu sem átti sér stað í þingsal um málefnið fyrir nokkrum vikum að frumkvæði hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar. Efnið er kallað til okkar í dag og á öllum tímum svo sem. Það er mikilvægt í síkviku umhverfi heilbrigðisþjónustu, þar sem flóra fagstétta og þekkingar er rík, viðhorfin sömuleiðis og væntingar og eftirspurn borgaranna er vaxandi og eindregnari eftir því sem tímar líða. Alþjóðlegur bragur og fjölmenning setur æ meiri svip sinn á þann hóp sem starfar að mikilvægum málefnum heilbrigðisþjónustu hér á landi og því er þetta efni líka svo tímabært að það kallast á við almennt gildismat, siðfræði og siðferðileg álitamál á sama tíma og við höldum mjög á lofti kröfunni um hagkvæmni og skilvirkni á öllum sviðum. Þetta er umræðuefni sem verður ekki afgreitt í eitt skipti fyrir öll. Það er stöðugt í deiglunni.