150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

vörumerki.

640. mál
[15:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Að sjálfsögðu er það til bóta varðandi það sem þingmaðurinn nefnir. En um leið og við erum búin að innleiða þetta með lyktina og bragðið, hvað gerist ef einhver annar verður á undan okkur og tekur lyktina af mysu eða skyri eða einhverju ef hægt er að ná því inn? Eða einhvers konar ammoníakslykt, eins og er af mörgum ostum? Svo ná þeir því vörumerki og eru þá kannski með forgangsrétt á Íslandi. Það útilokar okkur. Um leið og einhver er kominn með þennan rétt getur hann útilokað aðra. Ég er bara að vara við því. Verið er að opna fyrir það á Íslandi að setja inn lykt og bragð. Það eru skref sem verið er að taka, verið er að opna dyrnar og við vitum hvert það leiðir. Það er allt og sumt sem ég er að segja. Ef við höfum heimild til að sleppa því að setja lykt og bragð undir vörumerki þá er breytingartillaga mín sú að við sleppum því. Við töluðum svolítið um það í nefndinni, en veit hv. þingmaður hvort það var afgerandi svar ráðuneytisins að við gætum ekki undanskilið lykt og bragð í lögunum þannig að breytingartillaga mín myndi þá stangast á við EES-samninginn? Var komið afgerandi svar frá ráðuneytinu hvað það varðar?