150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

vörumerki.

640. mál
[15:59]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy kærlega fyrir ræðuna og röksemdafærslu hans fyrir því að styðja ekki frumvarpið. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er auðvelt að gera gys að þeim atriðum sem verið er að útvíkka með frumvarpinu, hvað geti talist lögverndað vörumerki, bragð, lykt, litir, hljóð, mynstur o.s.frv.

Mér finnst líka áhugaverður punkturinn hjá hv. þingmanni um það að eiga sæti við borðið til að koma sjónarmiðum okkar að. Það höfum við margsinnis talað um í þessum þingsal þegar kemur að EES-tilskipunum og hagsmunagæslu okkar í þeim efnum. Ég held að við hv. þingmaður séum hjartanlega sammála um að hagsmunagæslu okkar þarf að efla til muna. Við erum búin að tala um það í ansi mörg ár í þinginu og annars staðar í stjórnmálum.

Í 3. gr. frumvarpsins kemur fram að breytingin, útvíkkunin á því hvað getur talist vörumerki, er í takt við tilkomu nýrrar tækni. Ég velti fyrir mér ákveðnum einkarétti á bragði sem við Íslendingar og íslensk fyrirtæki höfum kannski ekki komið nægilega vel út úr, eins og til að mynda með einkaréttinn á skyri og ákveðnum bragðtegundum í íslenskri matarhefð sem gjarnan hefði mátt búa til ákveðin vörumerki um svo önnur fyrirtæki gætu ekki hagnast til að mynda á einhverju sem telst alíslensk matarhefð. Væri frumvarpið þá ekki til þess fallið að standa vörð (Forseti hringir.) um einhvers konar hefð í matvælaframleiðslu sem hægt er að nota til að sporna gegn því að fyrirtæki geti (Forseti hringir.) misnotað það á þann veginn? Hvað finnst hv. þingmanni um það?