150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

vörumerki.

640. mál
[16:03]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að þetta gæti verið áhugaverð umræða einmitt út af því sem hv. þingmaður kom inn á, og ég er honum hjartanlega sammála, varðandi stórar fjölþjóðlegar keðjur sem eru að sölsa undir sig ýmiss konar vörumerki og að þetta frumvarp geti kannski opnað á það. Ég held að við þurfum öll að vera vakandi yfir því. Ég held einmitt að þetta frumvarp sé til þess fallið að verja minni aðila fyrir þeim stærri, eins og við ræddum í fyrra andsvarinu varðandi skyrið.

Tökum sem dæmi ilmvatnsframleiðanda í Mosfellsdal sem býr til ákveðna lykt og vill hafa ákveðið vörumerki fyrir hana, en þá gæti stórfyrirtæki stolið því og notað í öðrum tilgangi en framleiðendur lyktarinnar sáu fyrir sér. Minni aðilar vilja verja sig fyrir stærri aðilum. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að sé ekki æskilegt að hér verði til stórar, fjölþjóðlegar fyrirtækjablokkir sem sölsi undir sig alls kyns vörumerki. Hv. þingmaður nefndi osta. Frakkar hafa farið mjög illa út úr því að hafa ekki verndað vörumerki sín í ostagerð sem eru mjög einkennandi fyrir franska matvælahefð og hafa tapað vörumerkjum þar.

Mig langar að heyra enn betur hjá hv. þingmanni hvað hann sér fyrir sér varðandi minni framleiðendur lyktar og bragðs, og þá erum við að tala um matvæli og (Forseti hringir.) svo eitthvað sem gæti verið ilmvatnstengt, eða snyrtivörur eða eitthvað þess háttar, gagnvart stærri aðilum. Er þetta frumvarp ekki til þess fallið að verja minni framleiðendur fyrir þeim stóru?