150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek heils hugar undir það sem hann sagði. Það er gríðarlega mikilvægt og það er andi nefndarinnar sem við sitjum báðir í, að við sjáum til þess að farið sé eftir algildri hönnun. Það hafa verið brotalamir á því. Nú segjum við að við ætlum ekki að líða það lengur að ekki sé tekið tillit til algildrar hönnunar á ferðamannaleiðum sem ríkið kostar eða tekur þátt í kostnaði við. Það er skýr vilji okkar og ég trúi því og treysti að þau orð sem við settum á blað skili því frá nefndinni að það sé andi hennar.

Ég vil líka taka undir það sem fyrirspyrjandi spurði mig um varðandi hjólastólaleiðir. Hér sitjum við félagarnir og erum búnir að sitja marga fundi saman um málið. Það er náttúrlega klaufaskapur okkar að við skyldum ekki hafa komið þessu inn í nefndarálitið og við tökum það örugglega báðir á okkur. Að sjálfsögðu ættu allar göngu- og hjólaleiðir að vera þannig úr garði gerðar að sá möguleiki sem er fyrir hendi sé nýttur til að gera þá færa fyrir hjólastóla. Ég geri mér grein fyrir því að það er kannski ekki alveg hægt alla leiðina, en það er gríðarlega mikilvægt að það sé alltaf efst í huga manna við lagningu slíkra vega að það sé hægt. Með þessum orðum okkar er því hér með komið til skila í umræðuna og hefur gildi fyrir lögum.