150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[16:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir andsvörin. En ég vil líka benda honum á eitt: Við erum saman í velferðarnefnd, en ég er ekki í atvinnuveganefnd þannig að ég kom ekki að þessu máli. Þess vegna er ég hér að reyna að miðla því. Ég hjó sérstaklega eftir þessu með hjólastólaleiðirnar. Ég skal alveg viðurkenna að ég varð eiginlega orðlaus um daginn þegar ég las um að einstaklingur, sem er fatlaður og í hjólastól, hafi klifið eitt af hæstu fjöllum heims. Hvernig í ósköpunum hann fór að því væri gaman að heyra. Það sýnir bara hversu kröftugt fólk er og viljinn ríkur til að komast út í náttúruna.

Þess vegna segi ég að við eigum að hamra það í lögin, og ég ætla að vona að við getum gert það fyrir atkvæðagreiðslu, að þarna inni verði hjólastólaleiðir, vegna þess að það er svo mikilvægt að gefa öllum tækifæri. Við vitum jú að það er ekki hægt að koma hjólastólaleiðum fyrir alls staðar en það er hægt að koma þeim fyrir á mörgum stöðum. Við sjáum nú þegar uppbyggingu t.d. á Þingvöllum þar sem margt er til fyrirmyndar hvað aðgengi varðar. Ef við einbeitum okkur bara að því og sjáum til þess að allar svona framkvæmdir séu þannig úr garði gerðar að allir geti notið þeirra þá erum við á réttri leið. Ég vona heitt og innilega að við séum nú loksins komin á þann stað að við skiljum engan eftir.