150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef upphæð gjafarinnar yrði hækkuð um 5.000 kr. þá værum við að tala um 3 milljarða til viðbótar og ef farið yrði upp í 15.000 kr. yrðu það 4,5 milljarðar. Ég ræddi áðan þegar ég fór í gegnum meirihlutaálitið ákveðnar forsendur. Bent er á ákveðnar leyfisveitingar í ferðaþjónustunni, að þetta afmarkist að einhverju leyti við það. Svo er það aðeins afmarkað varðandi söfn. Síðan er allt, eins og ég sagði áðan, mjög opið sem tengist ferðagjöfinni. Það er hægt að fara í margar áttir. Það hefði líka verið hægt að þrengja þetta þess vegna og sumir hafa talað um að þrengja frekar, beina fólki að ákveðnum hluta ferðaþjónustunnar sem myndi leiða til frekari notkunar þar sem fólk væri raunverulega á ferðalagi. Eins og ég segi, málið er rosalega opið að því leyti. Það er auðvelt að tala um 5.000 kr., það skilja allir, en við eigum kannski erfiðara með það ef við erum að tala um hundruð milljarða í samhengi hlutanna.