150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni en hann svaraði því ekki hvers vegna ekki er hægt að nota ávísunina eða gjöfina til þess að leigja t.d. tjald, útilegubúnað eða göngubúnað o.s.frv. Mér finnst það umhugsunarefni hvert við Íslendingar erum komnir þegar við erum farnir að skilgreina þetta með þessum hætti. Hv. þingmaður segir að þetta sé mjög opið. Það er ekkert opið þegar ekki er hægt að leigja þann einfalda búnað. Það er hægt að leigja bílaleigubíl og hægt er að leigja GPS-tæki með bílaleigubílum en það er ekki hægt að leigja GPS-tæki eitt og sér til að fara í göngu. Það gætir ekki jafnræðis meðal fyrirtækja hvað þetta varðar, þannig að ég held að hv. þingmaður verði aðeins að fara betur yfir það hver rökstuðningurinn er á bak við það. Það hafa ekki allir efni á því að fara upp á jökul eða hestbak eða eitthvað svoleiðis og sumir vilja bara ferðast á eins ódýran máta og hægt er og verið er að hvetja til þess með ferðagjöfinni. (Forseti hringir.) Það er hins vegar ekki hægt að nota hana til ódýrari ferðamáta eins og leigu á þeim búnaði sem ég nefndi.