150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð nefndarálitsins. Mér finnst reyndar áhugavert að Miðflokksmenn hengja sig svolítið mikið í það hvort frumvarpið heitir ávísun eða gjöf, meira en innihaldið sjálft, þ.e. til hvers leikurinn er gerður. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson fór yfir það mjög ítarlega áðan, gjöf en ekki ávísun, sem mér finnst kannski minna máli skipta en það til hvers við erum að þessu, hver meiningin er.

Það sem mig langaði til að inna hv. þingmann eftir er tvennt, í fyrsta lagi það sem var aðeins rætt áðan varðandi það hvort breyta ætti yfir höfuð innihaldinu, þ.e. að fjárhæðin væri 5.000 kr. fyrir fólk fætt 2002 og fyrr. Hér leggur Miðflokkurinn til, ef ég skil þetta rétt, að þetta sé sami hópur sem um ræðir nema það verði 15.000 kr. á mann. Ég velti fyrir mér hvort það hafi ekki frekar komið til greina af hálfu Miðflokksins, eins og hv. framsögumaður meiri hluta nefndi hér áðan, að leggja bara til að allir aldurshópar fengju þetta, það væri fyrir landann allan eins og sagt er, fremur en að hækka einungis á þann hóp sem hér er undir.

Í öðru lagi er hér lagt út af jafnræðissjónarmiðum, þ.e. hvaða ferðaþjónustuaðilar eða þeir sem selja búnað eða annað slíkt geti notið þeirra króna sem hér eru undir. Telur þingmaðurinn að hægt sé að vera með tæmandi lista yfir þá aðila (Forseti hringir.) sem þarna eru? Hefði þá ekki verið æskilegt að Miðflokkurinn hefði komið með þær tillögur í ljósi þess að á það er helsta áherslan?