150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um ferðagjöf eða þessa dæmalausu gúmmítékka eins og þeir gætu verið fyrir suma. Við vorum að velta fyrir okkur hvort ungt fólk í dag vissi hvað ávísun væri. Ég efast um að það viti hvað gúmmítékki er. Við gerðum oft grín að því þegar við vorum ungir að við gætum rifið gúmmítékkann, klætt okkur úr frakkanum og sprengt kínverjann. En ferðastaðan eftir Covid er eiginlega þannig að það að tékka inn ferðamenn er farið og líka flug og þá eru ekki margir að fara í frakka til þess að ferðast.

En það sem er kannski merkilegast við þessa stórkostlegu ávísun, eða kannski það eina góða sem er hægt að taka fram strax, er að hún er ekki skattskyld. Þar af leiðandi skerðir hún ekki bætur öryrkja, sem eru mjög lágar eins og við vitum. Ég fór að hugsa hvert þeir gætu farið, þeir öryrkjar sem fá útborgaðar 215.000 kr. á mánuði í boði ríkisins, þegar þeir fá þessa stórkostlegu 5.000 kr. ávísun. Ég fór að athuga það. Ef þeim dettur í hug að skella sér bara með strætó þá fylgir því ákveðið vandamál. Ég er þegar búinn að senda fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um aðgengi, vegna þess að nú á að fara að kaupa og endurnýja strætó á landsbyggðinni, um það hvort þeir séu aðgengilegir fyrir fatlaða. Það er ekki sjálfsagt mál enn þann dag í dag að þeir séu yfir höfuð aðgengilegir og að viðkomandi, jafnvel í hjólastól, geti komist í strætó.

En ef hann kemst nú í strætó — hann þarf annaðhvort að láta halda á sér inn eða kemst inn af sjálfsdáðum — hvert kemst hann fyrir 5.000 kr.? Jú, hann kæmist á Sauðárkrók en hann yrði að stoppa þar. Hann kæmist ekki lengra ef hann ætlaði að eiga fyrir farinu aftur til Reykjavíkur. Ef hann fer norðurleiðina þá nær hann á Sauðárkrók. Hann kæmist ekki til Akureyrar vegna þess að það kostar 3.250 fyrir öryrkja og eldri borgara. Hann yrði þá að leggja fram ákveðnar upphæðir til að komast til baka. Ef hann færi suðurleiðina þá kæmist hann að Kirkjubæjarklaustri. Það kostar 2.516 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja að komast þangað.

Þá kemur upp önnur staða, við skulum segja að hann fari af stað í bjartsýniskasti og ákveði að skella sér á Sauðárkrók. Hann veit að þá er gjöfin búin en gæti notað afgang til að komast eitthvað til baka. En þá er spurning um gistingu, hvernig er staðan á gistimálum fyrir fatlaða úti á landi? Ég nefndi Sauðárkrók. Ég hef ekki hugmynd um hvernig staðan er þar. Og hvað kostar gistingin? Ég hugsaði með mér að einstaklingur sem er með 215.000 kr. á mánuði getur ekki valið um einhverja lúxusgistingu. Ég spyr mig hvort hæstv. framsögumaður geri sér grein fyrir því og hafi hugsað um það hvernig sá einstaklingur ætti að nýta sér þetta og hvernig hann gæti fundið gististað sem hann hefði efni á vegna þess að ég efast um að hann geti farið fram og til baka á einum degi, þó er það sennilega mögulegt. Síðan hefur komið í ljós að við getum nýtt ferðagjöfina í alls konar leigu á bílum, jafnvel í gegnum bílaleigur og jafnvel leigt útbúnað til ferðalaga í gegnum ákveðnar skrifstofur og ákveðnir aðilar geta tekið við ávísunum, en þeir sem eru eingöngu í að leigja tjöld, viðlegubúnað eða veiðistangir geta ekki tekið við þeim af því að þeir eru ekki skráðir rétt, sem er svolítið furðulegt dæmi.

Veltum því líka fyrir okkur: Hvers vegna í ósköpunum erum við að gefa t.d. okkur 63 í þessum þingsal þessa ferðaávísun? Ég spyr mig. Ef við vildum og værum virkilega að hvetja einhverja til að ferðast þá ættum við auðvitað að reyna að einbeita okkur að því og hvetja þá mest til ferðalaga sem hafa ekki efni á því. Hvernig förum við að því? Hv. framsögumaður var einmitt að tala um að ef við hefðum þetta 15.000 eða 20.000 kr. myndi það kosta þrisvar sinnum meira, sem ég efast um.

Við verðum líka að átta okkur á því að þegar við erum að tala um allan þann fjölda sem á að nýta það sem við vorum að tala um, um 280.000 manns, þá er stór hluti erlendis. Ég er sannfærður um að það væri gott ef helmingurinn af þessum fjölda gæti nýtt sér þetta vegna þess að margir eru skráðir erlendis og eru erlendis og koma ekki til með að nýta það. En jú, þeir gætu gefið það. En þá spyrjum við líka: Geta þeir selt ávísunina? Geta þeir sem eru félitlir keypt hana? Er eitthvað sem gæti komið í veg fyrir að einhver sem ætlar sér að fara af stað reyni að safna 15 ávísunum? Þá er upphæðin komin upp í 75.000 kr. Þá er komin upp allt önnur staða fyrir þann sem er kominn á Sauðárkrók. Hann gæti þá örugglega fundið sér gistingu, það er alveg pottþétt. Það er bara spurning um hversu gott aðgengi væri að þeirri gistingu.

Við vitum líka að fyrir venjulegt fólk á venjulegum verkamannalaunum sem eru lágmarkslaun í landinu og eru ekki há, ekki nema rétt rúmlega 300.000 kr., þá myndi þessi ávísun skipta miklu máli. Ég sá að fjögurra manna fjölskylda sem færi t.d. til Akureyrar gæti fengið gistingu þar fyrir 6.000–7.000 kr. nóttina. Ég veit ekki hvernig sú gisting er, en í fjögurra manna fjölskyldu eru mjög líklega tveir fullorðnir með 10.000 kr. í ávísunum og tvö börn þannig að ferðagjöfin gæti dugað fyrir einni og hálfri nótt, jafnvel tveimur, ef viðkomandi gististaður byði afslátt við að fá ávísunina.

Ég furða mig líka á því að ekki var fundið út eitthvert meðaltal. Hugsið ykkur ef við tækjum meðallaun í landinu, sem eru rétt rúmar 700.000 kr., og hefðum haft gjöfina hærri upphæð en bara þeir sem eru undir því meðaltali hefðu fengið hana. Það hefði skilað sér betur. Mér finnst eiginlega stórfurðulegt að við skulum vera að gefa öllum þetta. Ef við setjum það líka í samhengi, þessi 5.000 kr. ávísun er ¼ af því sem við í góðmennsku okkar hérna samþykktum að veita til öryrkja út af Covid, sem voru 20.000 kr., það er allt og sumt sem hefur verið sett til öryrkja vegna Covid. Samt hefur matvara og ýmis önnur aðföng þeirra stórhækkað.

Þetta verður kannski sögulegast að því leyti að þetta er það fyrsta og eina sem ríkisstjórnin gerir fyrir eldri borgara, þessi 5.000 kr. ávísun, í öllum Covid-málunum. Ekkert annað hefur verið gert fyrir eldri borgara. Það er bæði ríkisstjórninni og okkur hérna í þinginu til háborinnar skammar. Við vitum að margir eldri borgarar hafa það rosalega gott en við vitum líka að margir þeirra hafa það algjörlega skítt og þeim þarf að hjálpa. En við höfum ekki gert það nema með þessari 5.000 kr. ávísun. Ég er eiginlega enn að átta mig á því hvort við eigum að öskra húrra yfir því eða ekki vegna þess að í flestum tilfellum dugir það kannski fyrir tveimur pítsum, með heppni, eða einni máltíð.

Miðað við það sem hér hefur komið í ljós ætla Íslendingar í stórum hópum að ferðast erlendis og miðað við það að þeir sem eru að flytja inn tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi hafa ekki undan, vagnarnir eru seldir áður en þeir koma til landsins, þá sjáum við að þarna er stór hópur fólks sem hefur það bara gott og getur ferðast um landið og ætlar sér að gera það. Og ég segi fyrir mitt leyti: Að láta þá fá ferðagjöf finnst mér alger óþarfi. En ég spyr hvort það væri ekki þjóðráð að setja inn í frumvarpið leyfi til þess að gefa t.d. Öryrkjabandalagi Íslands ferðaávísanir. Það gæti bara safnað þeim saman og síðan deilt út til þeirra sem þurfa virkilega á að halda. Ég hugsa að það væri mun betra og ég get ekki séð á neinn hátt að þessir 1,5 milljarðar muni skila sér út. Ég held að við megum þakka fyrir að helmingurinn skili sér út og þá segi ég fyrir mitt leyti að við skulum nýta afganginn, ef hann verður, fyrir þá sem þurfa á að halda. Það er t.d. hægt að útdeila peningunum í gegnum Öryrkjabandalagið og samtök eldri borgara. Það væri hægt að búa til ferðasjóð fyrir þá hópa, ég hugsa að það væri þjóðráð.

En eins og ég segi, mér finnst frumvarpið að mörgu leyti stórfurðulegt. Ég óttast að það skili ekki því sem til var ætlast. Það hefði skilað sér betur ef vandað hefði verið meira til þess og upphæðin hefði verið hærri. Ég heyrði, og sel það ekki dýrara en ég keypti það, í fréttum að Japanir ætli að gefa hverjum landsmanni þar gjöf að jafnvirði 25.000 íslenskra króna. Þeir voru meira að segja, held ég, að tala um að niðurgreiða helming af flugfargjöldum og helming af hótelgistingu fyrir þá ferðamenn sem ætluðu að koma þangað. Ef það er rétt þá er það alvörukraftur í því að koma hlutunum í gagnið. En ég er ekki svo grófur að ætlast til þess heldur hefði ég eingöngu viljað, og geri eiginlega kröfu til þess, að þeir sem minnst hafa og síst geta ferðast fái meira en við hinir, sem höfum efni á því að ferðast og getum það, fáum ekki neitt. Þannig á réttlætið að vera.