150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:51]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir þessar athugasemdir sem ég held að hafi ekki verið spurningar. Viðhorf mitt er í stuttu máli að þessi tilraun hefur yfir sér blæ eyðslu og óráðsíu vegna þess að hún er svo óljós og þokukennd. Ég skil hins vegar hv. þingmann afskaplega vel og get alveg verið sammála um að það væri í fullkomnum heimi afskaplega gott ef fleiri nýttu sér almenningssamgöngur. En hér höfum við gert tilraunir í áraraðir til þess einmitt að fá fólk til að nota þær meira. Það hefur ekki verið árangur af því svo nokkru nemi. Miðað við fjármagnið sem hefur verið sett í það hefur árangurinn verið harla lítill. (Gripið fram í.)

Hér á að gera enn eina tilraunina, umbylta stofnkerfi höfuðborgarsvæðisins til að koma fyrir einhverjum vögnum sem ég held að enginn viti nákvæmlega hvernig eigi að líta út, hvernig þeir eigi að ganga eða hvernig þeir eigi að komast á milli staða nema þá með því að ryðja annarri umferð frá. Ég deili áhuga hv. þingmanns á því að það væri æskilegt að nota almenningssamgöngur meira og fólk gerði það meira en raunin er að það er ekki þannig. Það hefur ekki tekist og við ætlum ekki að fara að gera tilraun sem kostar tugi milljarða til að reyna að auka notkun á almenningssamgöngum.